Herlög felld úr gildi í Úkraínu

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, og innanríkisráðherrann, Arsen Avakov.
Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, og innanríkisráðherrann, Arsen Avakov. AFP

Úkraínsk stjórnvöld hafa nú afnumið herlög, sem sett voru á í 10 héruðum við Svartahafið og við landamæri Rússlands og Úkraínu, eftir að Rússar her­tóku þrjú úkraínsk her­skip skammt frá Krímskag­an­um í lok síðasta mánaðar.

Var Úkraínuher í kjölfarið með vopnaðar sveitir á vakt á þessum svæðum og varaherlið var kallað út. Samkvæmt herlögunum var rússneskum karlmönnum á aldrinum 16-60 ára þá bannað að koma til Úkraínu.

Herlögin féllu úr gildi á hádegi í dag, en utanríkisráðuneyti Rússlands hafði áður sagst vona að Vesturlönd gætu ráðið úkraínskum stjórnvöldum frá frekara hernaðarbrölti.

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, sagði fyrr í mánuðinum að hann ætlaði ekki að framlengja herlögin nema það kæmi til umfangsmikilla aðgerða Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert