Íhuga að banna búnað frá Huawei

Kona notar síma sinn við merki Huawei í Peking. Bandarísk …
Kona notar síma sinn við merki Huawei í Peking. Bandarísk stjórnvöld íhuga nú að banna fjarskiptafyrirtækjum að nota búnað frá kínversku fyrirtækjunum Huawei og ZTE. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er nú sagður íhuga nýja forsetatilskipun sem muni banna bandarískum fyrirtækjum að nota samskiptabúnað frá kínversku tæknifyrirtækjunum Huawei og ZTE að því er Reuters-fréttaveitan hefur eftir þremur heimildamönnum. Þá hefur Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Bretlands, lýst yfir „verulega alvarlegum áhyggjum“ af að 5G-búnaður frá Huawei verði notaður í fjarskiptaneti Bretlands. 

Láti Trump verða af því að banna samskiptabúnaðinn yrði það enn eitt skrefið í að koma Huawei og ZTE, sem eru tvö stærstu kínversku fyrirtækin, út af bandarískum fjarskiptamarkaði. Fullyrða bandarísk stjórnvöld raunar að fyrirtækin gangi erinda kínverskra stjórnvalda og að búnaður frá þeim yrði notaður til að njósna um Bandaríkjamenn.

Reuters segir forsetaskipunina hafa verið til skoðunar um átta mánaða skeið og að vera kunni að Trump virki hana strax í janúar. Samkvæmt henni yrði bandarískum fyrirtækjum bannað að kaupa búnað frá erlendum framleiðendum fjarskipabúnaðar sem bandarísku þjóðaröryggi væri talin standa ógn af.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður búinn að vera með forsetatilskipunina …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður búinn að vera með forsetatilskipunina til skoðunar um átta mánaða skeið. AFP

Málið talið aðkallandi

Ólíklegt er talið að fyrirtækin verði nefnd sérstaklega á nafn að sögn heimildamanna Reuters, en takmarkanirnar eru þó sagðar verða slíkar að þær verði túlkaðar sem takmörkun á frekri útbreiðslu fyrirtækjanna innan Bandaríkjanna. Sérstök neyðarlög yrðu virkjuð með forsetatilskipuninni, en þau gefa forsetanum heimild til að setja lög á viðskipti vegna neyðarástands sem ógni Bandaríkjunum.

Reuters segir málið vera talið nokkuð aðkallandi þar sem bandarísk fyrirtæki leita nú að samstarfsaðilum varðandi 5G-farsímakerfið.

AFP-fréttaveitan hefur eftir breska varnarmálaráðherranum Gavin Williamson að hann hafi verulegar áhyggjur af að kerfi Huawei verði notað fyrir 5G-farsímakerfið í Bretlandi. „Það er eitthvað sem við verðum að skoða mjög náið,“ sagði Williamson.

„Við verðum að horfa til þess hvað bandamenn okkar í Ástralíu og Bandaríkjunum eru að gera til að tryggja að þeir hafi hámarksöryggi varðandi 5G-netið.“

Bretar verði að átta sig á þeirri staðreynd að stundum sé illur hugur að baki aðgerðum kínverska ríkisins. Tekur Williamson þar í sama streng og Alex Younger, yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI6, gerði fyrr á þessu ári, þegar hann sagði bresk yfirvöld þurfa að „taka ákvarðanir“ varðandi aðkomu fyrirtækja á borð við Huawei.

Með mikil ítök hjá fjarskiptafyrirtækjum í dreifbýli

Bandarísk stjórnvöld bönnuðu í ágúst bandarískum ríkisstofnunum að nota búnað frá Huawei og ZTE.  

Reuters segir stóru bandarísku fjarskiptafyrirtækin þegar hafa skorið á tengsl við þau kínversku en segir bandarísk símafyrirtæki í dreifbýli vera meðal stærstu viðskiptavina Huawei og ZTE í Bandaríkjunum. Fyrirtækin tvö hafa raunar slík ítök hjá þessum smærri fjarskiptafyrirtækjum að William Levy, aðstoðarforstjóri Huawei í Bandaríkjunum, er í stjórn Rural Wireless Association, sem eru samtök fjárskiptafyrirtækja í dreifbýli. Eru þessi minni fjarskiptafyrirtæki sögð óttast að forsetatilskipunin geri kröfu um að þau skipti út öllum núverandi búnaði. Skiptar skoðanir eru hins vegar á því hvort stjórnvöldum sé slíkt heimilt.

Fyrirtækin tvö hafa til þessa alfarið hafnað ásökunum um að vörur þeirra séu notaðar sem njósnabúnaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert