Láku upplýsingum um landflótta á netið

Landamæraborgin Kaesong í Norður-Kóreu. Mynd úr safni.
Landamæraborgin Kaesong í Norður-Kóreu. Mynd úr safni. AFP

Tölvuþrjótar hafa lekið á netið persónuupplýsingum tæplega 1.000 einstaklinga sem flúið höfðu frá Norður-Kóreu. BBC segir þetta hafa gerst er brotist var inn í tölvu í miðstöð í Suður-Kóreu, sem sér um aðlögun þeirra sem flýja frá nágrannaríkinu í norðri.

Sameiningarráðuneytið greindi frá þessu og segir vírus hafa fundist í tölvunni, en þetta er að sögn ráðuneytisins í fyrsta skipti sem leki á sambærilegan skala hefur orðið.

Ekki er vitað hverjir tölvuþrjótarnir voru, né heldur hverrar þjóðar þeir eru.

BBC segir suðurkóresk stjórnvöld ekki saka ráðamenn í Norður-Kóreu um að standa að baki tölvuárásinni, en öryggissérfræðingar hafa þó undanfarið varað við aukinni færni norðurkóreskra tölvuþrjóta.

Ein stærsta tölvuárás sem tengd hefur verið Norður-Kóreu til þessa beindist gegn Sony fyrirtækinu, en árið 2014 var miklu magni gagna frá fyrirtækinu eytt og önnur gögn birt á netinu. 

BBC segir búið að tilkynna 997 Norður-Kóreumönnum sem flúðu land að upplýsingum um þá hafi verið lekið á netið. Ekki liggur hins vegar fyrir hvaða áhrif lekinn kann að hafa. Sérfræðingar segja þó nokkrar áhyggjur af því að fjölskyldum flóttamannanna, sem enn búa í Norður-Kóreu, kunni að stafa hætta af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert