Reisa girðingu milli Úkraínu og Krímskaga

Úkraínskir hermenn grafa skurð í nágrenni borgarinnar Shyrokyne, skammt frá …
Úkraínskir hermenn grafa skurð í nágrenni borgarinnar Shyrokyne, skammt frá Azovhafinu sem þeir deila með Rússum. AFP

Rússnesk yfirvöld hafa nú lokið við að reisa tæknivædda landamæragirðingu þvert yfir landamærin sem skilja Krímskagann frá Úkraínu.

BBC segir girðinguna, sem er rúmlega 60 km löng, vera með gaddavír á toppnum og hundruð skynjara sem flestir eiga að nema eiga hreyfingu frá þeim sem reyna að komast yfir í óleyfi. Nokkrir nemanna eru útvarpsskynjarar og er rússneski herinn með svipaða nema á norður og austur landamærum ríkisins.

Rússar hertóku Krímskagann, sem áður tilheyrði Úkraínu í mars 2014 og hlutu fordæmingu alþjóðasamfélagsins fyrir. Meirihluti íbúa Krímskaga er rússneskumælandi.

Rússneska leyniþjónustan FSB segir landamæragirðinga vera nauðsynlega til að koma í veg fyrir „tilraunir skemmdarverkamanna til að laumast þar í gegn“. Hefur rússneska RIA Novoasti fréttaveitan eftir leyniþjónustunni að girðingin muni einnig koma í veg fyrir tilraunir smyglara til að koma yfir ólöglegum vopnum, fíkniefnum, áfengi og annarri bannvöru. 

Nú fyrr í vikunni tilkynnti Petro Porósjenkó, forseti Úkraínu, að búið væri að afnema herlög sem sett voru í kjölfar þess að Rússar her­tóku þrjú úkraínsk her­skip skammt frá Krímskag­an­um í lok síðasta á mánaðar.

Yfirvöld í Úkraínu hafa þó einnig sett upp eigin landamæragirðingar frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga og voru m.a. settar upp slíkar girðingar í Chernihiv go Kharkiv héruðum sem eiga landamæri að Rússlandi, sem og í Kherson sem er í nágrenni Krímskagans.

mbl.is