Segir prinsessuna sjá eftir myndbandinu

Sjeika Latifa í myndbandinu sem hún gerði áður en hún …
Sjeika Latifa í myndbandinu sem hún gerði áður en hún reyndi að flýja land.

Fyrrverandi mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur verið sakaður um að styðja útgáfu Sj­eik Mohammed bin Rashid Al Maktoum, leiðtoga fursta­dæm­is­ins Dúbaí og for­sæt­is­ráðherra Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæm­anna, af því hvað kom fyrir dóttur hans prinsessuna Sjeku Latifa, sem ýmsir fullyrða að sé í haldi fjölskyldu sinnar.

Í myndbandsupptöku sem gerð var opinber skömmu eftir að prinsessan hvarf á skútu á Indlandshafi í mars á þessu ári greinir Latifa frá að að hún hafi haft áform um að flýja frá Dúbaí enda hafi hún sætt illri meðferð frá hendi föður síns, ásamt syst­ur sinni, Shamsa, sem ekki hef­ur sést op­in­ber­lega frá ár­inu 2000, er hún sjálf reyndi að flýja land. 

„Sért þú að horfa á þetta mynd­band er það hið versta mál; ég er annaðhvort lát­in eða í mjög, mjög, mjög slæmri stöðu,“ seg­ir Latifa í mynd­band­inu.

Ekk­ert hefur sést til Latifu síðan og vinir hennar segjast ekki hafa heyrt í henni frá því í mars, en In­sta­gram-reikn­ingi henn­ar var lokað á sama tíma.

Mary Robinson, mannréttindastjórinn fyrrverandi, hitti prinsessuna nýlega og sagði í samtali við BBC að Latifa væri ung kona sem ætti erfitt og að hún sæi eftir að hafa sent frá sér myndbandið.

Radha Stirling, sem er í forsvari fyrir mannréttindasamtökin Detained in Dubai sem haldið hafa því fram að Latifa hafi haft samband við þau frá skútunni áður en hún hvarf, segja spurningum um velferð prinsessunnar enn vera ósvarað.

„Hver sá sem þekkir sögu Latifu og hlýddi á viðtalið við Robinson er væntanlega forviða á því hvernig hún virðist vera að lesa næstum orðrétt upp forskrift þeirra í Dúbaí,“ sagði Stirling og kvað innihaldið það sama og fram hafi komið í fyrri yfirlýsingu konungshirðarinnar.

„Þessi fundur fullvissar mig á engan hátt um að hún sé laus undan misþyrmingunum sem hún sagði mér að hún hefði sætt árum saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert