Lét barn deyja úr þorsta

Liðsmenn íraskra hersveita halda á öfugum fána Ríkis íslams eftir ...
Liðsmenn íraskra hersveita halda á öfugum fána Ríkis íslams eftir að hafa náð valdi á Mósúl í fyrra. AFP

27 ára gömul þýsk kona, þekkt sem Jennifer W, stendur frammi fyrir ákæru vegna stríðsglæpa sem hún er sökuð um að hafa framið sem liðsmaður Ríkis íslams í Írak árið 2015.

Jennifer er sökuð um að hafa látið fimm ára stúlku deyja úr þorsta fyrir utan híbýli sín í írösku höfuðborginni Mósúl, sem þá var undir yfirráðum vígamanna Ríkis íslams. Mósúl var hertekin árið 2014 og var undir yfirráðum Ríkis íslams þar til í júní á síðasta ári þegar íraskar hersveitir náðu borginni á sitt vald. 

Eftir því sem fram kemur á vef BBC hafði eiginmaður Jennifer keypt stúlkuna, sem tilheyrði líkast til minnihlutahópi jasída, úr hópi stríðsfanga og þau haft hana sem þræl. Þegar stúlkan hafði svo orðið veik hafði eiginmaður Jennifer hlekkjað hana niður fyrir utan húsnæði þeirra og Jennifer ekkert gert til að bjarga henni frá brennheitri sólinni. Þá hefur Jennifer einnig verið sökuð um morð og brot á vopnalögum.

Verði Jennifer sakfelld í hryðjuverkadómstóli þýsku borgarinnar Munchen, á hún yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm.

Jennifer ferðaðist til Íraks árið 2014 og gerðist liðsmaður Ríkis íslams. Samkvæmt þýskum saksóknurum var hennar hlutverk innan hryðjuverkasamtakanna að fara í vopnaðar eftirlitsferðir um almenningsgarða í Mósúl og írösku borginni Fallujah, til að gæta þess að konur færu eftir reglum samtakanna um klæðaburð og siðgæði.

Nokkrum mánuðum eftir dauða stúlkunnar var Jennifer svo handtekin af tyrkneskum lögregluyfirvöldum eftir að hafa heimsótt þýska sendiráðið í höfuðborginni Ankara til að endurnýja auðkennisskírteini sín.

Hún var síðan framseld til Þýskalands og var til að byrja með leyft að fara heim til sín vegna skorts á sönnunargögnum gegn henni. Lögregluyfirvöld handtóku hana síðan í júní eftir að hún gerði tilraun til að ferðast til Sýrlands og hefur hún verið í gæsluvarðhaldi síðan.

mbl.is
Einn sá öflugasti
JAKINN Einn sá öflugasti og verklegasti Ford 7,3 Power Stroke, Skráður frá framl...
Trampolin til sölu
Stoj tampolin til sölu fyrir kr. 15.000,-. Stærð: Þvermál:244 cm X 60 cm x 150 ...
Hefur þú áhuga á því að ganga til liðs
Hefur þú áhuga á því að ganga til liðs við Musteris Riddara Bræðralagsreglu (Kni...