Fjórir í haldi sakaðir um mannrán

Mennirnir hafa verið ákærðir fyrir mannrán og gætu hlotið þunga …
Mennirnir hafa verið ákærðir fyrir mannrán og gætu hlotið þunga dóma. AFP

Fjórir menn hafa verið ákærðir fyrir að ræna 14 ára gamalli stúlku og 12 ára gömlum bróður hennar í New York-ríki í Bandaríkjunum. Saksóknarar segja að mennirnir tilheyri sértrúarsöfnuði sem kallast Lev Tahor, sem eru samtök ofurstrangtrúaðra gyðinga og með aðsetur í Gvatemala.

Mennirnir eru sagðir hafa rænt systkinunum í bænum Woodrige, sem er norður af New York. Þeir ætluðu síðan að fara með börnin til Gvatemala eftir að móðir þeirra, sem tilheyrði söfnuðinum, flúði sex vikum áður en þetta gerðist. 

Fram kemur á vef BBC, að konan hafi óttast um öryggi barnanna og taldi að sértrúarhópurinn, sem faðir hennar stofnaði, væri orðinn mjög öfgafullur, en bróðir konunnar er nú leiðtogi hópsins. 

Meðal kenninga Lev Tahor er að konur verði að hylja sig frá toppi til táar með því að klæðast svörtum kyrtlum.

Mennirnir sem eru í haldi lögreglu eru á aldrinum 20 til 45 ára. Þeir eru sakaðir um að ræna börnunum af heimili þeirra 8. desember og fara með þau á lítinn flugvöll sem er skammt frá borginni Scranton í Pennsylvaníu-ríki.

Þaðan flugu þau til Mexíkó. Hópurinn fannst síðan í bænum Tenango del Aire í gærmorgun og börnin eru aftur komin til móður sinnar í Woodridge.

Þrír mannanna hafa verið fluttir til Bandaríkjanna þar sem þeir voru síðan handteknir. Sá fjórði var handtekinn í Brooklyn í New York 23. desember. Hann er sakaður um að hafa aðstoðað þremenningana fjárhagslega. 

Mennirnir eru m.a. ákærðir fyrir mannrán og gætu átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert