Fimm látnir á kjördegi í Bangladess

Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess (lengst til hægri), á kjörstað í …
Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess (lengst til hægri), á kjörstað í morgun. AFP

Fimm létust eftir átök í tengslum við þingkosningar sem fara fram í Bangladess í dag. Þar af létust þrír þegar stuðningsmenn flokksins Awami Leage, sem er við völd í landinu, og stuðningsmenn Þjóðernisflokks Bangladess, helsta stjórnarandstöðuflokks landsins, tókust á í tveimur aðskildum atvikum.

Tveir aðrir voru skotnir til bana af lögreglunni, þar af annar eftir að hann reyndi að stela kjörkassa og hinn eftir að stjórnarandstæðingar reyndu að ráðast inn á kjörstað.

Mikill viðbúnaður hefur verið í landinu vegna kosninganna og voru um 600 þúsund löggæslumenn til taks í gær. 

Sjónvarpsstöðin Jamuna TV, sem er ein sú þekktasta í landinu, hefur verið tekin úr loftinu og hafa engar skýringar á því verið gefnar, að sögn yfirmannsins Fahim Ahmed.

Búist er við að Sheik Hasina haldi áfram sem forsætisráðherra landsins að loknum kosningum og yrði það hennar fjórða kjörtímabil við völd.

Almenningur í Dhaka í biðröð fyrir utan kjörstað.
Almenningur í Dhaka í biðröð fyrir utan kjörstað. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert