Fjórir létust í þyrluslysi

Hér sjást logarnir og reykjarmökkur eftir að þyrlan hafnaði í …
Hér sjást logarnir og reykjarmökkur eftir að þyrlan hafnaði í hlíð fjallsins. Ljósmynd/Skjáskot af vef National

Fjórir létust þegar björgunarþyrla flaug inn í svifbraut, e. zip line, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í gær. Þyrlan var á leið í björgunarútkall í Jebel Jais, fjalli í Ras al-Khaimah furstadæminu, þegar hún hrapaði. BBC greinir frá.

Áhöfn þyrlunnar, björgunarfólk og flugmenn, lét lífið í slysinu. Myndband af atvikinu sem birt var á vef The National sýnir hvernig þyrlan hringsnýst þverhnípt og hafnar svo í hlíð fjallsins þar sem hún stendur í ljósum logum. 

Lengsta svifbraut í heimi

Öryggisráðuneyti og stjórnstöð öryggismála Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur staðfest að fjórir hafi verið um borð í þyrlunni þegar hún fórst. 

Yfirstjórn landsins hefur þegar fyrirskipað að slysið verði rannsakað og öryggisstaðlar á svæðinu verði teknir út. Jafnframt hefur verið gefin út samúðaryfirlýsing til fjölskyldna áhafnarmeðlimanna sem fórust í slysinu. 

Svifbrautin, Toroverde, er sú lengsta í heimi og var hún opnuð í febrúar á þessu ári. Hún er 2,83 kílómetrar að lengd. Öllum bókuðum ferðum í svifbrautina hefur verið aflýst þar til rannsókn málsins er lokið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert