Sagðir sjást bera líkamshluta Khashoggis

Khashoggi var pistlahöfundur fyrir Washington Post.
Khashoggi var pistlahöfundur fyrir Washington Post. AFP

Tyrknesk sjónvarpsstöð hefur sýnt myndefni úr eftirlitsmyndavélum sem sýnir menn bera töskur og poka, sem stöðin segir að innihaldi líkamshluta sádiarabíska blaðamannsins Jamals Khashoggis.

Myndefnið var sýnt á stöðinni seint í gærkvöldi en þar sjást þrír menn bera fimm ferðatöskur og tvo stóra svarta poka inn á heimili ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl.

Heimili ræðismannsins er skammt frá ræðismannsskrifstofunni, þar sem Khashoggi var myrtur í októbermánuði. Sjónvarpsstöðin, A-Haber, hefur eftir ónefndum tyrkneskum heimildum að pokarnir og töskurnar hafi innihaldið líkamshluta hans.

Khashoggi, sem var pistlahöfundur fyrir Washington Post, var myrtur 2. október skömmu eftir að hann gekk inn á ræðismannsskrifstofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert