Ræddu þjóðaratkvæði um ESB 1994

John Major þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra Bretlands.
John Major þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra Bretlands. AFP

Þáverandi ríkisstjórn Bretlands ræddi um möguleikann á því að halda þjóðaratkvæði um veru landsins í Evrópusambandinu árið 1994 með það fyrir augum að bregðast við pólitískum þrýstingi frá andstæðingum aðildar Breta að sambandinu.

Þetta kemur fram í gögnum sem þjóðskjalasafn Bretlands birti fyrir helgi og breska dagblaðið Guardian hefur fjallað um. Þar kemur fram að málið hafi hins vegar dottið upp fyrir þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem leidd var af þáverandi forsætisráðherra John Major, hafi ekki getað komið sér saman um það að hverju ætti að spyrja.

Enn fremur segir að Michael Heseltine, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hafi stutt tillöguna en ráðherrann Willam Waldegrave hafi varað við því að slíkt þjóðaratkvæði myndi aðeins styrkja stöðu andstæðinga veru Bretlands í Evrópusambandinu. Bæði Major og Heseltine hafa talað gegn fyrirhugaðri útgöngu Breta úr sambandinu.

Meirihluti breskra kjósenda greiddi atkvæði með því í þjóðaratkvæði sumarið 2016 að segja skilið við Evrópusambandið hvar Bretland hefur verið frá árinu 1973. Til stendur að Bretar segi formlega skilið við sambandið 29. mars á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert