Trump vill leita sátta

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill finna lausn á deilunni um …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill finna lausn á deilunni um fjárlög þingsins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir sáttafundi með leiðtogum repúblikana og demókrata á Bandaríkjaþingi til að finna lausn á deilunni um fjárlög þingsins. Um fjórðungur bandarískra ríkisstofnana hafa verið lokaðar í 12 daga þar sem þær fá ekkert fjármagn á meðan fjárlögin hafa ekki verið samþykkt.

Trump neitaði að skrifa undir fjárlögin fyrir jól þar sem þar er ekki gert ráð fyrir fimm milljörðum dollara til að reisa landamæramúr við Mexíkó. Krafan var samþykkt í fulltrúadeildinni en hefur ekki komist í gegnum öldungadeildina.

Demókratar taka við forystuhlutverki í fulltrúadeildinni þegar þeir snúa aftur til vinnu eftir jólafrí á morgun. Nancy Pelosi tekur við sem forseti þingsins og bauðst Trump til að gera samning við hana á Twitter í gærkvöldi. „Öryggi við landamærin og „þetta með múrinn“ og lokun ríkisstofnana er varla sá staður sem Nancy Pelosi vill hefja ferilinn á! Eigum við að semja?“ spurði forsetinn á Twitter.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert