Írland vill fjárhagsaðstoð frá ESB

AFP

Ríkisstjórn Írlands hefur farið fram á fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu upp á hundruð milljóna evra til þess að undirbúa landið fyrir þann möguleika að Bretland yfirgefi sambandið líkt og fyrirhugað er í lok mars án þess að sérstakur útgöngusamningur taki gildi.

Þetta er haft eftir Michael Creed, landbúnaðarráðherra Írlands, í frétt AFP. Tilgangurinn með fjárhagsaðstoðinni verður að hjálpa írskum bændum og sjómönnum komi til þess að tollar verði lagðir á útflutning írskra landbúnaðar- og sjávarafurða til Bretlands.

Tæplega 80% írskra útflutningsfyrirtækja selja vörur sínar til Bretlands miðað við tölur frá 2016. Fjölmargir Írar fara enn fremur um Bretland á leið sinn til meginlands Evrópu. Creed segir ljóst að Írland sé mjög viðkvæmt þegar kemur að útgöngu Breta.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, samdi við Evrópusambandið í lok síðasta árs um útgöngu landsins en samningurinn hefur ekki verið samþykktur af breska þinginu hvar mikil andstaða er við hann. Ekki síst í Íhaldsflokki forsætisráðherrans.

Fyrir vikið þykja líkur hafa vaxið á því að Bretland muni ganga úr Evrópusambandinu, hvar Írland er á meðal aðildarríkja, án þess að samið verði um sérstakan útgöngusamning og að um viðskipti Breta við sambandið muni gilda reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert