Óeirðir í kjölfar farar kvenna í hof

Átök brutust út þegar fréttist af för kvennanna í hofið …
Átök brutust út þegar fréttist af för kvennanna í hofið og hafa þau stigmagnast. AFP

Opinber þjónusta í indverska ríkinu Kerala liggur að stórum hluta niðri eftir að átök og mótmæli brutust út í kjölfar þess að tvær konur fóru inn í hindúahofið Sabarimala í fyrsta skipti.

Konum á aldrinum tíu til fimmtíu ára hefur verið bannað öldum saman að fara inn í hofið þar sem heittrúaðir hindúar telja að konur sé óhreinar þegar þær eru á blæðingum og segja að hindúaguð, sem hofið er helgað, hafi gefið fyrirmæli um bannið.

Hæstiréttur Indlands aflétti banninu í september en konum var áfram meinaður aðgangur að hofinu, þar til í gær, þegar Bindu Ammini og Kanaka Durga, sem eru 40 og 39 ára, komust inn í hofið í fylgd lögreglumanna.

Átök brutust út þegar fréttist af för kvennanna í hofið og hafa þau stigmagnast. Einn er látinn og fimmtán eru slasaðir eftir að mótmælendur köstuðu steinum að hópi fólks. Um hundrað manns hafa verið handtekin vegna óeirðanna. Þá liggur skólastarf niðri vegna ástandsins sem og almenningssamgöngur.

Skír­lífs­goðið Ayyappa er til­beðið í hindúahofinu Sabarimala.
Skír­lífs­goðið Ayyappa er til­beðið í hindúahofinu Sabarimala. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert