Kanadískur ferðamaður í haldi

Frá Sýrlandi.
Frá Sýrlandi. AFP

Kanadískur ferðamaður er í haldi í Sýrlandi samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Kanada. Ferðamaðurinn, 44 ára karlmaður að nafni Kristian Lee Baxter, hafði ferðast til þorps skammt frá landamærum Líbanon að Sýrlandi sem er á valdi sýrlenska stjórnarhersins.

Fram kemur í kanadískum fjölmiðlum að ekki hafi spurst til Baxter síðan 1. desember. Samkvæmt frétt AFP er Baxter ævintýramaður að sögn ættingja hans. Hann hafi ferðast til Sýrlands þrátt fyrir stríðið sem geisað hefur í landinu frá árinu 2011.

Kanadísk stjórnvöld hafa hvatt Kanadamenn til þess að forðast ferðalög til Sýrlands. Ekki síst þar sem stríðsástandið í landi geri kanadískum ráðamönnum erfitt að gæta hagsmuna kanadískra ríkisborgara í landinu. Ekki liggur fyrir hverjir hafa Baxter í haldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert