Semja um staðsetningu næsta fundar

Donald Trump og Kim Jong-un áttu sögulegan fund í júní …
Donald Trump og Kim Jong-un áttu sögulegan fund í júní á síðasta ári. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir samningaviðræður um staðsetningu næsta fundar hans með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, vera komnar af stað en kom sér undan því að svara spurningum um tímasetningu fundarins.

Trump og Kim áttu sögu­leg­an fund í júní á síðasta ári, en það var upp­hafið að því ferli að af­kjarn­orku­væða Kór­eu­skag­ann. Fram að því höfðu leiðtog­arn­ir skipst á móðgun­um og hót­un­um mánuðum sam­an. Ann­ar fund­ur er fyr­ir­hugaður á þessu ári, en Trump hef­ur fengið á sig gagn­rýni vegna þess að Norður-Kórea virðist ekki hafa tekið mörg skref í átt að því að láta af kjarn­orku­áætlun sinni.

Trump sagði fjölmiðlamönnum fyrr í vikunni að hann hefði fengið „frábært bréf“ frá leiðtoga Norður-Kóreu en neitaði að gefa upp efnislegt innihald þess.

„Við erum að semja um staðsetningu. Hún verður tilkynnt líklega í ekki of fjarlægri framtíð. Þeir vilja funda og við viljum funda og við sjáum hvað gerist,“ sagði Trump áður en hann fór upp í þyrlu til Camp David í Maryland þar sem hann sagðist ætla að ræða viðskiptasamning við Kína. Hann bætti því við að samtalið við Norður-Kóreu væri mjög jákvætt.

Forsetinn svaraði spurningum fjölmiðlamanna áður en hann fór í þyrlu …
Forsetinn svaraði spurningum fjölmiðlamanna áður en hann fór í þyrlu til Camp David þar sem hann ætlar að sögn að vinna í viðskiptasamningi við Kína. AFP

Í nýársávarpi sínu sagði Kim Jong-un að hann væri staðfastur um að standa við kjarnorkuafvæðingu en að sú stefna gæti hæglega breyst ef Bandaríkin halda áfram viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu.

Trump sagði í dag að viðskiptaþvinganirnar væru enn „í fullu gildi“ og myndu haldast þannig þangað til Bandaríkin sæju „mjög jákvæðar“ niðurstöður. Þá ítrekaði hann að Bandaríkin væru í stríði í Asíu ef hann hefði ekki átt fund með Kim í júní á síðasta ári.

„Einhver annar en ég og þið væruð í stríði akkúrat núna. Þið hefðuð verið í stóru feitu stríði við Norður-Kóreu í Asíu ef ég hefði ekki verið kjörinn forseti,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert