Vilja tryggingu fyrir öryggi Kúrda

John Bolton þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna (t.v.) er hann heimsótti bandaríska hermenn …
John Bolton þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna (t.v.) er hann heimsótti bandaríska hermenn í Írak skömmu fyrir áramót. Hann segir Bandaríkin þurfa tryggingu fyrir því að Tyrkir ráðist ekki gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands. AFP

Brotthvarf bandarískra hermanna frá Sýrlandi er háð því skilyrði að trygging fáist frá stjórnvöldum í Tyrklandi um að öryggi Kúrda í norðurhluta Sýrlands verði tryggt, samkvæmt John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjastjórnar.

Þetta sagði Bolton við blaðamenn í Jerúsalem í dag, en hann er þessa dagana í ferð til Ísraels og Tyrklands. Hann segist ætla að leggja áherslu á það í viðræðum sínum við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta að öryggi Kúrda verði tryggt, en margir hafa óttast að í kjölfar brotthvarfs Bandaríkjamanna frá Sýrlandi myndu Tyrkir nota tækifærið og láta til skarar skríða gegn Kúrdum. Málflutningur æðstu ráðamanna í Tyrklandi hefur enda ekki gefið ástæðu til annars en að ætla að sú yrði raunin.

„Við teljum að Tyrkir ættu ekki að grípa til hernaðaraðgerða sem eru ekki í samráði við og samþykktar af Bandaríkjastjórn, svo þeir setji ekki hermenn okkar í hættu og einnig svo þeir standi við skilyrði forsetans um að sýrlensku andspyrnuhreyfingunum sem hafa barist við hlið okkar sé ekki ógnað,“ sagði Bolton fyrir fund sinn með ísraelskum embættismönnum í dag.

Hermaður frá YPG, varnarsveitum Kúrda, ásamt bandarískum hermanni í Sýrlandi.
Hermaður frá YPG, varnarsveitum Kúrda, ásamt bandarískum hermanni í Sýrlandi. AFP

Spurður nánar, hvort herlið Bandaríkjanna muni ekki hverfa á braut fyrr en Tyrkland lofaði að tryggja öryggi Kúrda í Sýrlandi, svaraði Bolton: „Í grundvallaratriðum er það rétt.“ Hann bætti því einnig við að Bandaríkin vildu tryggja að það litla sem eftir væri af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams í Sýrlandi væri gjörsigrað, samkvæmt frétt BBC um málið

Trump Bandaríkjaforseti sætti harðri gagnrýni fyrir þær yfirlýsingar sínar að hann hygðist draga bandarískt herlið heim frá Sýrlandi, þar sem fullnaðarsigur hefði unnist gegn Ríki íslams. Er hann tilkynnti um brotthvarfið um miðjan desember sagði hann að hermennirnir, sem eru um það bil 2.000 talsins, myndu koma heim mjög fljótlega.

Í dag sagði Trump hins vegar við fjölmiðla vestanhafs að Bandaríkjaher væri á heimleið, en hann „hefði aldrei sagt að við værum að gera það snögglega“. Þá sagði Bandaríkjaforseti að enn væri verið að „útrýma“ eða „stráfella“ liðsmenn Ríkis íslams í Sýrlandi.

Frétt Reuters um málið.

Bandarískur bryndreki í fylgd ökutækja sem merktar eru varnarsveitum Kúrda, …
Bandarískur bryndreki í fylgd ökutækja sem merktar eru varnarsveitum Kúrda, YPG. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert