Húsleit hjá 19 ára manni vegna gagnaleka

Skjáskot sýnir skyggðar persónuupplýsingar Angelu Merkel kanslara Þýskalands.
Skjáskot sýnir skyggðar persónuupplýsingar Angelu Merkel kanslara Þýskalands. AFP

Lögregluyfirvöld í Þýskalandi gerðu húsleit hjá 19 ára gömlum hugbúnaðarfræðingi í tengslum við rannsókn á stórum gagnaleka þar sem persónuupplýsingum hundraða stjórnmálamanna var lekið á netið. Fréttavefur Sky News greinir frá.

Ungi maðurinn, Jan Schuerlein, hefur réttarstöðu vitnis að sögn yfirvalda en fjölmiðlar greina frá því að lögreglan hafi framkvæmt húsleit á heimili hans og lagt hald á tölvubúnað í hans eigu.

Per­sónu­upp­lýs­ing­um hundraða þýskra stjórn­mála­manna var lekið á netið í sein­asta mánuði í formi aðventu­da­ga­tals. Meðal fórn­ar­lamba var Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, og aðrir stjórn­mála­menn. Þá var árás­inni einnig beint gegn fjöl­miðlamönn­um og tón­list­ar­fólki.

Enn er á huldu hver stóð á bak við gagnalek­ann, en upp­lýs­inga­ör­ygg­is­ráðuneyti Þýska­lands rann­sak­ar málið. Twitter-reikn­ingn­um sem birti upp­lýs­ing­arn­ar hef­ur verið eytt en 17 þúsund manns fylgdu hon­um.

Schuerlein er sagður hafa birt skjáskot af samtali sem hann átti við þann sem stóð á bak við Twitter-reikninginn 4. janúar þar sem sá sem lak gögnunum sagðist ætla að eyðileggja tölvubúnað sinn.

Alríkisstofnun upplýsingaöryggis Þýskalands (BSI), sem er eins konar netöryggisstofnun, hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir aðgerðaleysi en komið hefur í ljós að stofnuninn vissi af lekanum í margar vikur án þess að láta lögregluyfirvöld vita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert