Óttast um líf sitt í heimalandinu

Rahaf Mohammed al-Qunun.
Rahaf Mohammed al-Qunun. AFP

Ung kona frá Sádi-Arabíu, sem er í haldi taílenskra yfirvalda, verður send aftur til heimalandsins þrátt fyrir að hún hafi grátbeðið um hæli þar sem hún óttast um líf sitt í heimalandinu.

Rahaf Mohammed al-Qunun, sem er 18 ára gömul, segir að hún hafi flúið frá fjölskyldu sinni þegar þau voru á ferðalagi í Kúveit þar sem þau hafi beitt hana líkamlegu sem og andlegu ofbeldi. 

Hún ætlaði að flýja til Ástralíu og sækja um hæli þar. Hún segist óttast um líf sitt en taílenskir landamæraverðir stöðvuðu för hennar í gær. 

Að sögn yfirmanns innflytjendamála í Taílandi, Surachate Hakparn, bíður Qunun ásamt landamæravörðum og fulltrúum sendiráðs Sádi-Arabíu í Taílandi á flugvellinum eftir því að fara með flugi til Sádi-Arabíu. Senda átti hana með flugi þangað með millilendingu í Kúveit en að sögn fulltrúa Mannréttindavaktarinnar var Qunun ekki meðal farþega þegar vélin fór í loftið frá flugvellinum í Bangkok í morgun. 

Uppfært klukkan 6:57 - samkvæmt BBC hefur Qunun komið í veg fyrir að vera send úr landi með því að loka sig inni á hótelherbergi á flugvellinum og neitar að yfirgefa landið. Að hennar sögn munu bræður hennar og fjölskylda drepa hana verði hún send til þeirra. 

Qunun segir í samtali við AFP að hún hafi verið stöðvuð við komuna til Taílands af sádiarabískum embættismönnum sem og fulltrúum stjórnvalda í Kúveit þegar hún lenti á flugvellinum í Bangkok um helgina og þeir hafi tekið af henni ferðagögn og skilríki.

Málið hefur vakið mikla athygli um helgina ekki síst vegna annarra mála tengdum Sádi-Arabíu að undanförnu varðandi mannréttindi og morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Mál Qunun þykir um margt líkt og öðru máli sem kom upp í apríl 2017. Þá var Dina Ali Lasloom, 24 ára, stöðvuð á flugvellinum í Manila en hún hafði millilent á flótta sínum frá Sádi-Arabíu, í gegnum Kúveit, á leið til Ástralíu. Hún var send aftur til Sádi-Arabíu líkt og fjölskylda hennar hafði krafist. Ekkert hefur frést af örlögum hennar eftir það en Lasloom fékk að nota síma frá kanadískum ferðamanni til þess að senda út myndskilaboð þar sem hún sagðist óttast um líf sitt yrði hún send heim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert