Segja valdaránið hafa misheppnast

Talsmaður ríkisstjórnarinnar í Gabon sagði fyrir skemmstu að valdaránstilrauninni í landinu hefði verið hrundið og að fjórir uppreisnarmenn hefðu verið handteknir. Guy-Bertrand Mapangou, talsmaður ríkisstjórnar Ali Bongo forseta, bætti því við í samtali við BBC að fimmti uppreisnarmaðurinn væri á flótta.

Hóp­ur her­manna tók yfir rík­is­út­varp Afr­íku­rík­is­ins í nótt og las upp yf­ir­lýs­ingu til lands­manna kl. 4:30 að staðar­tíma, þar sem fram kom að þeir vildu koma á fót þjóðarráði til þess að end­ur­reisa lýðræði í Ga­bon, en Bongo forseti hefur ekki komið til landsins síðan í nóvember, er hann hélt til Marokkó til endurhæfingar vegna heilablóðfalls.

Hermennirnir sögðust í yfirlýsingu sinni hafa tekið völdin í landinu þar sem forsetinn gæti ekki rækt skyldur sínar við þjóðina heilsu sinnar vegna, en valdaránið virðist hafa misheppnast hrapallega, samkvæmt því sem talsmaður ríkisstjórnarinnar segir.

Frétt BBC 

Hermennirnir sögðust í yfirlýsingu hafa tekið völdin í landinu þar …
Hermennirnir sögðust í yfirlýsingu hafa tekið völdin í landinu þar sem forsetinn gæti ekki rækt skyldur sínar við þjóðina heilsu sinnar vegna, en valdaránið virðist hafa misheppnast hrapallega, samkvæmt því sem talsmaður ríkisstjórnarinnar segir. AFP
mbl.is