Verður ekki þvinguð til að yfirgefa landið

Frá Suvarnabhumi-flugvellinum í Bangkok.
Frá Suvarnabhumi-flugvellinum í Bangkok. AFP

Taílensk yfirvöld munu ekki þvinga unga konu frá Sádi-Arabíu til þess að yfirgefa landið að sögn yfirmanns innflytjendamála. Rahaf Mohammed al-Qunun sem er átján ára gömul hefur óskað eftir í hæli í Taílandi þar sem hún sé í lífshættu. 

Qunun flúði fjölskyldu sína þegar þau voru á ferðalagi í Kúveit en hún segir að þau beiti hana bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi og líf hennar sé í hættu þurfi hún að fara til fjölskyldunnar að nýju.

Hún ætlaði að sækja um hæli í Ástralíu en var stöðvuð við eftirlit á flugvellinum í Bangkok þegar hún millilenti þar í gær.

Yfirmaður innflytjendamála í Taílandi, Surachate Hakparn, sagði í gær að Qunun fengi ekki landvistarleyfi þar sem hún væri án skilríkja. En eftir mikla umfjöllun fjölmiðla hefur hann breytt um stefnu og segir að ef hún vilji ekki fara þá verði hún ekki flutt nauðug úr landi. Fulltrúar Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) muni hitta hana og fara yfir stöðu mála. Hlustað verði á óskir hennar og stjórnvöld muni reyna að koma á samstarfi um að veita henni aðstoð við að sækja um hæli, hvar sem það verður.

Rahaf Mohammed al-Qunun.
Rahaf Mohammed al-Qunun. AFP

Qunun var stöðvuð við landamæraeftirlit vegna þess að sádiarabískir embættismenn höfðu samband og létu vita að hún hefði flúið að heiman.

Að sögn Surachate munu Sameinuðu þjóðirnar verða fengnar til þess að meta rétt hennar á hæli ef hún óskar eftir hæli í Taílandi.

„Taíland er land brossins. Við munum ekki senda einhvern út í opinn dauðann,“ segir hann. 

Samkvæmt upplýsingum frá UNHCR hafa þeir fengið aðgang að Qunun á flugvellinum til þess að aðstoða hana og skoða hvort hún uppfyllir skilyrði um alþjóðlega vernd. Qunun hefur birt myndskeið á Twitter þar sem hún sést í hótelherbergi sínu en hún hefur hlaðið húsgögnum fyrir hurðina svo ekki er hægt að opna hana. Hún heldur því fram að embættismenn hafi tekið af henni ferðagögnin og aðstoðarframkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar í Asíu, Phil Robertsson, tekur undir það með henni. Hún segir að þar hafi embættismenn frá Sádi-Arabíu og Kúveit verið að verki en Surachate segir að í Taílandi sé það hefðbundið ferli þarlendra embættismanna ef fólki er synjað um landvist. 

Í morgun hafnaði dómari beiðni um að koma í veg fyrir brottvísun Qunun. Ekki væru næg gögn fyrir hendi til þess að grípa til slíkra aðgerða.

Yfirmaður innflytjendamála, Surachet Hakparn, ræddi við blaðamenn fyrir skömmu.
Yfirmaður innflytjendamála, Surachet Hakparn, ræddi við blaðamenn fyrir skömmu. AFP

Abdulilah al-Shouaibi, sem starfar í sendiráði Sádi-Arabíu í Bangkok, segir að faðir Qunun hafi óskað eftir aðstoð við að koma henni til fjölskyldunnar að nýju en neitar að starfsmenn sendiráðsins hafi átt aðild að því að taka af henni skilríki og önnur ferðagögn.

Hann segir að hún verði send til fjölskyldunnar í Kúveit en fjölskyldan búi þar. Qunun segir aftur á móti að þau hafi aðeins verið í ferðalagi þar. Hún segir fjölskylduna mjög stranga og að fjölskyldan muni örugglega drepa hana. Hún hafi verið lokuð inni í herbergi sínu í sex mánuði fyrir það eitt að hafa klippt hár sitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert