Mun segja að hættuástand ríki

Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar þjóð sína í nótt.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar þjóð sína í nótt. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun í sjónvarpsávarpi sínu í nótt segja þjóð sinni að hættuástand ríki við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó og að Bandaríkjaþing verði að samþykkja smíði múrs á landamærunum til að binda enda á lokun ríkisstofnana en átján dagar eru liðnir síðan þeim var fyrst lokað.

Forsetinn hefur verið duglegur við að gagnrýna andstæðinga sína úr Demókrataflokknum, mestmegnis á Twitter og á blaðamannafundum, vegna tregðu þeirra við að leggja til fjármagn vegna smíði múrsins. 

Í nótt mun Trump nýta sér stærsta kynningartækifæri forsetaembættisins, þ.e. formlegt ávarp til þjóðarinnar klukkan 21 að staðartíma eða klukkan 2 í nótt að íslenskum tíma í beinni útsendingu frá forsetaskrifstofu Hvíta hússins.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sagði við ABC-fréttastofuna að Trump muni tala um „raunverulega mannaúðar- og öryggiskrísu við landamæri okkar í suðri“.

Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins vildi ekkert tjá sig um hvort Trump muni lýsa yfir neyðarástandi í landinu. Ef hann gerir það getur hann sniðgengið þingið og fyrirskipað smíði múrsins með því að nota fjármuni sem eru ætlaðir hernum.

Kellyanne Conway, blaðafulltrúi Hvíta hússins, ræðir við fjölmiðla í dag.
Kellyanne Conway, blaðafulltrúi Hvíta hússins, ræðir við fjölmiðla í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert