Sagði upp eftir að kona í dái ól barn

Lögreglan rannsakar málið.
Lögreglan rannsakar málið. AFP

Forstjóri fyrirtækis sem rekur hjúkrunarheimili í Arizona í Bandaríkjunum hefur sagt upp störfum eftir að í ljós kom að kona sem er í dái ól barn.

Afsögn Bill Timmons var samþykkt einhljóða af stjórn fyrirtækisins, að því er kom fram í yfirlýsingu.

Konan hafði legið inni á hjúkrunarheimilinu í rúman áratug og þurfti stöðuga meðhöndlun, enda meðvitundarlaus með öllu.

Nafn hennar hefur ekki verið gefið upp en þó hefur verið staðfest að hún eignaðist barnið 29. desember, að því er BBC greindi frá, en lögreglan rannsakar málið.

„Miðað við það sem mér hefur verið sagt kveinaði hún en þau vissu ekki hvað var að henni,“ sagði heimildarmaður við sjónvarpsstöðina KPHO-TV. „Enginn úr starfsliðinu áttaði sig á því að hún væri ófrísk fyrr en hún var við það að fara að fæða.“

Gary Orman, varaforseti í stjórn fyrirtækisins, sagðist „ekki sætta sig við neitt annað en ítarlega rannsókn á þessu hryllilega atviki“.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi hvers einasta sjúklings okkar og starfsmanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert