„Ekki greiða lausnarféð“

Heimili Anne-Elisabeth Falkevik og Tom Hagen en tíu vikur eru …
Heimili Anne-Elisabeth Falkevik og Tom Hagen en tíu vikur eru síðan henni var rænt af heimilinu. AFP

„Ekki greiða lausnarféð, voru ráðin sem við gáfum fjölskyldunni,“ segir Tommy Brøske, sem stýrir rannsókninni á hvarfi Anne-Elisabeth Falkevik Hagen. Tíu vikur eru frá því að henni var rænt af heimili sínu í Fjellhamar skammt fyrir utan Ósló. Fyrst var greint opinberlega frá hvarfinu í morgun en nokkrir norskir fjölmiðlar vissu af því en fóru að beiðni lögreglunnar um að greina ekki frá því. 

Anne-Elisabeth Falkevik.
Anne-Elisabeth Falkevik. AFP

Tommy Brøske segir að lögreglan hafi allan tímann verið sannfærð um að hún hafi verið numin á brott gegn eigin vilja. Mannræningjarnir hafa hótað að beita hana ofbeldi verði kröfum þeirra ekki mætt en mannræningjarnir krefjast þess að fá lausnarféð greitt í rafmynt. Að sögn lögreglunnar hefur lögreglan ekki rætt munnlega við mannræningjana heldur fara samskiptin fram rafrænt.

Í frétt VG kemur fram að mannræningjarnir hafi farið fram á að fá greiddar 9 milljónir evra, sem svarar til 1,2 milljarða íslenskra króna, í lausnarfé og greiðslan sé í rafmynt sem nefnist monero. Brøske vildi ekki staðfesta þetta við fréttamenn í morgun.

Blaðamenn fyrir utan heimili Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik í …
Blaðamenn fyrir utan heimili Tom Hagen og Anne-Elisabeth Falkevik í Fjellhamar, í morgun. AFP

Upplýsingum um málið hefur verið komið til allra lögregluumdæma í Noregi og óskað eftir því að vel sé fylgst með auðugum fjölskyldum í landinu. 

Eiginmaður Anne-Elisabeth Falkevik Hagen, Tom Hagen, skipar sæti 172 yfir auðugasta fólk Noregs en eignir hans eru metnar á  1,7 millj­arða norskra króna, sem svar­ar til 23,7 millj­arða króna. Hagen er um­svifa­mik­ill í fast­eignaviðskipt­um og á auk þess 70% hlut í orku­fyr­ir­tæk­inu El­kraft. 

Við heimili Falkevik-hjónanna í Fjellhamar.
Við heimili Falkevik-hjónanna í Fjellhamar. AFP

Rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar í Ósló með aðstoð frá Kripos, efnahagsbrotadeildinni, ríkissaksóknara, Europol og Interpol. 

Ummerki eru um að ráðist hafi verið á Anne-Elisabeth Falkevik Hagen inni á baðherbergi hússins en ekkert bendir til þess að brotist hafi verið inn í húsið.

Eiginmaður hennar kom að mannlausu húsinu síðar þennan sama dag, 31. október, og fann hann bréf sem ritað er á norsku og er eitthvað um stafsetningarvillur í textanum.

Í bréfinu hóta mannræningjarnir að taka Anne-Elisabeth af lífi ef lögregla verði upplýst um málið. Ekkert hefur heyrst frá Önnu-Elisabeth frá því henni var rænt en á sama tíma hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að hún hafi verið drepin. Lögreglan telur að auðæfi fjölskyldunnar séu ástæðan á bak við mannránið. 

Litlar sem engar vísbendingar eru um hverjir mannræningjarnir eru. Engar öryggismyndavélar eru við eða inni í húsinu en lögreglan hefur rannsakað eftirlitsmyndavélar með umferð í nágrenninu. 

Okkar markmið er að finna hana á lífi og sameina hana og fjölskylduna. Í alvarlegum sakamálum sem þessu þá skiptir tíminn sköpum. Við vonumst til þess að fá ábendingar sem geta aðstoðað okkur við finna Anne-Elisabeth,“ segir Brøske.

Frétt NRK

Frétt Aftenposten

Frétt VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert