NASA meðal fórnarlamba lokananna

Dmitry Rogozin yfirmaður Roscosmos brást hinn versti við er honum …
Dmitry Rogozin yfirmaður Roscosmos brást hinn versti við er honum var tillkynnt að NASA hefði þurft að hætta við heimsókn hans um ófyrirséðan tíma. AFP

Yfirmaður rússnesku geimvísindastofnunarinnar Roscosmos greindi í dag frá því að fyrirhugaðri ferð hans til Bandaríkjanna í næsta mánuði hefði verið frestað, af því að bandaríska geimvísindastofnunin NASA væri meðal „fórnarlamba“ lokunar ríkisstofnana þar í landi.

Dmitry Rogozin, yfirmaður Roscosmos, sem er eldheitur þjóðernissinni og þekktur fyrir að vera mótfallinn Vesturlöndum, brást hinn versti við í síðustu viku er NASA tilkynnti að fresta hefði þurft heimsókn hans um ótilgreindan tíma. AFP segir Rogozin hins vegar nú virðast hafa tekið útskýringar Jim Bridenstine, yfirmanns NASA, gildar og er sáttur við að ástæða frestunarinnar sé ekki af pólitískum toga. Bridenstine heimsótti Rússland í október á síðasta ári og lofaði þá samstarf þjóðanna í geimrannsóknum.

„Okkur hefur verið greint frá því að þetta sé afleiðing deilu Bandaríkjaþings og Donald Trumps Bandaríkjaforseta,“ sagði Rogozin í samtali við rússnesku ríkissjónvarpsstöðina Rossiya 24.

„NASA er fórnarlamb þeirrar deilu,“ bætti hann við og kvaðst vita að bandaríska geimvísindastofnunin væri hlynnt því að koma á frekari samstarfi við Rússland.

„Við höfum líka áhuga á að vinna með Bandaríkjunum, þó að við myndum gjarnan vilja að þau væru fyrirsjáanlegri samstarfsaðilar,“ sagði Rogozin og kvað núverandi ástand skilja eftir visst óbragð.

96% starfsmanna NASA ekki nauðsynleg

NASA er meðal þeirra ríkisstofnana Bandaríkjanna sem sætt hefur lokunum vegna deilu Trumps við þingið. Trump hef­ur farið fram á 5,7 millj­arða Banda­ríkja­dala til þess að fjár­magna bygg­ingu stálþils á landa­mær­um Bandaríkjanna og Mexíkó, en demó­krat­ar, sem ný­verið náðu meiri­hlut­an­um í full­trúa­deild­inni, eru ein­arðir í and­stöðu sinni við áætlan­ir Trumps. 

Flest starfsfólk NASA er í hópi þeirra 800.000 ríkisstarfsmanna sem nú eru launalausir, þar sem 96% af starfsmönnum stofnunarinnar teljast ekki nauðsynleg. Þannig geta vísindamenn sem starfa hjá bandarískum ríkisstofnunum ekki tekið þátt í ráðstefnum sem haldnar eru þessa dagana, m.a. fundi bandaríska stjarnfræðifélagsins, American Astronomical Society.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert