R. Kelly enn á ný sakaður um misnotkun

R. Kelly hefur ítrekað verið sakaður um kynferðisofbeldi gegn ungum …
R. Kelly hefur ítrekað verið sakaður um kynferðisofbeldi gegn ungum konum. AFP

Rapparinn R. Kelly gæti átt yfir höfði sér rannsókn í Georgíu-ríki eftir sýningu heimildarmyndar þar sem rætt er við fórnarlömb Kelly sem er sakaður um að hafa misnotað fjölda kvenna.

Í myndinni „Surviving R. Kelly“ er rætt við fórnarlömb, fjölskyldur þeirra og fólk sem starfað hefur með Kelly. Gerald Griggs, lögfræðingur Joycelyn Savage sem er ein kvennanna sem kom fram í myndinni, segir að saksóknari hafi haft samband við sig eftir að myndin var sýnd.

Griggs bætti því við að saksóknari íhugi að rannsaka mál Kelly. Upplýsingafulltrúi skrifstofu saksóknara í Fulton í Georgíu sagðist ekkert geta tjáð sig um málið.

Tónlistarmaðurinn John Legend, Tarana Burke og spjallþáttastjórnandinn Wendy Williams eru meðal þeirra sem koma fram í myndinni. Legend sagðist trúa konunum og að það hefði verið auðveld ákvörðun að koma fram. Hann hefði engan áhuga á því að vernda „raðbarnanauðgara“.

Lögmaður rapparans sagði að um falskar ásakanir væri að ræða. Saksóknari í Chicago sagðist á þriðjudag hafa verið í sambandi við tvær fjölskyldur í tengslum við ásakanir á hendur Kelly. Auk þess hvatti saksóknarinn möguleg fórnarlömb eða vitni til að hafa samband við lögreglu.

Kelly var  sýknaður árið 2008 af ákæru um að hafa barnaklám í fór­um sín­um eft­ir frétta­flutn­ing um mynd­band sem var sagt hafa sýnt hann í kyn­lífs­at­höfn­um með stúlku sem var und­ir lögaldri.

Á síðasta ári lagði kona fram kæru til lög­regl­unn­ar um að Kelly hafi vilj­andi smitað hana af kyn­sjúk­dómi. Sam­band þeirra hófst þegar hún var 19 ára.

Fyrir tveimur árum greindi Buzz­Feed News frá því að Kelly hefði heilaþvegið sex kon­ur, lokað þær inni á heim­ili sínu og neytt þær til kyn­maka við sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert