Árásin sem markaði upphafið

Myndskeið frá árásinni í gyðingasafninu í Brussel í maí 2014.
Myndskeið frá árásinni í gyðingasafninu í Brussel í maí 2014. AFP

Réttarhöld eru hafin yfir manni sem sakaður er um að hafa skotið fjóra til bana á gyðingasafninu í Brussel 24. maí 2014. Árásin markaði upphaf hryðjuverkaárása öfgamanna tengdum vígasamtökunum Ríki íslams í Evrópu.

Mehdi Nemmouche, 33 ára gamall Frakki, á yfir höfði sér lífstíðardóm verði hann dæmdur í þyngstu mögulegu refsingu fyrir árásina í Brussel. Árásina framdi hann eftir að hafa barist með Ríki íslams í Sýrlandi í tæpt ár.

Auk Nemmouche er annar Frakki, Nacer Bendrer, sem er þrítugur að aldri, fyrir rétti en Bendrer er ákærður fyrir að hafa útvegað vopnin sem notuð voru í árásinni. Alls er ákæran 200 blaðsíður að lengd en gert er ráð fyrir að réttarhöldin standi yfir í einhverjar vikur. Gríðarleg öryggisgæsla er í kringum dómshúsið í Brussel.

Mehdi Nemmouche sést hér í aftursæti bifreiðarinnar sem flutti hann …
Mehdi Nemmouche sést hér í aftursæti bifreiðarinnar sem flutti hann í dómshúsið. AFP

Tveir grímuklæddir lögreglumenn sitja hvor sínu megin við Nemmouche í réttarsalnum. Bendrer er einnig í réttarsalnum. Báðir hafa þeir neitað aðild að hryðjuverkaárásinni sem stóð yfir í 82 sekúndur. Á þeim sekúndum rigndi skotum yfir gesti í safninu. Vitnin eru fjölmörg en alls hefur rúmlega 100 manns verið gert að mæta og bera vitni við réttarhöldin. Fjölskyldur fórnarlambanna og leiðtogar gyðinga í Belgíu eru einnig í réttarsalnum. 

Árásarmaðurinn skaut fyrst úr skammbyssu og síðan sjálfvirkum riffli og létust tveir ísraelskir ferðamenn, Frakki og belgískur afgreiðslumaður í gyðingasafninu.

Mehdi Nemmouche.
Mehdi Nemmouche. AFP

Nemmouche, sem er fæddur í franska bænum Roubaix, á alsírska foreldra. Hann var handtekinn í frönsku hafnarborginni Marseille sex dögum eftir árásina en þangað kom hann með rútu frá Brussel. Að sögn lögreglu var hann með vopnin sem hann beitti í árásinni á sér þegar hann var handtekinn við komuna til Marseille.

Að sögn saksóknara barðist hann með sveit vígasamtakanna í Sýrlandi frá 2013 til 2014 en þar kynntist hann Najim Laachraoui, félaga í glæpagenginu sem stóð á bak við sjálfsvígsárásirnar í Brussel 22. mars 2016. 32 létust í þeim árásum.  

Sama glæpagengi er einnig talið hafa skipulagt og sent vígamennina til Parísar sem frömdu árásirnar í París 13. nóvember 2015 en 130 létust í þeim árásum auk þess sem hundruð særðust. Báðar árásirnar voru raktar til Ríkis íslams en þúsundir Evrópubúa tóku þátt í starfi samtakanna í Sýrlandi og Írak. 

Nemmouche og Bendrer, að sögn lögreglu, kynntust fyrir tæpum áratug í fangelsi í Suður-Frakklandi. Þar var þeim lýst sem öfgamönnum sem reyndu að fá aðra fanga til þess sama. Bendrer var handtekinn í Marseille sjö mánuðum eftir árásina á gyðingasafninu og ákærður fyrir aðild að árásinni. Þrátt fyrir að hann hafi verið dæmdur í fimm ára fangelsi í Frakklandi fyrir tilraun til kúgunar var hann fluttur til Belgíu fyrir þessi réttarhöld. 

Riffillinn sem var notaður í árásinni.
Riffillinn sem var notaður í árásinni. AFP

Nemmouche verður væntanlega leiddur fyrir dómara í Frakklandi fyrir að hafa haldið frönskum blaðamanni í gíslingu í Sýrlandi. Gert er ráð fyrir að gíslinn fyrrverandi muni bera vitni gegn Nemmouche í þessum réttarhöldum varðandi hvaða mann hann hafi að geyma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert