Cohen ber vitni fyrir þinginu

Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, ætlar að bera …
Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, ætlar að bera vitni fyrir þinginu. AFP

Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingur Donald Trumps Bandaríkjaforseta, mun bera vitni fyrir eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í næsta mánuði að því er nýkjörinn formaður nefndarinnar, Elijah Cummings, greinir frá.

Mun Cohen bera vitni fyrir nefndinni 7. febrúar og þakkaði Cummings Cohen í dag fyrir að samþykkja sjálfviljugur að koma fyrir nefndina.

Cohen hefur þegar játaði fyrir alríkisdómi að hafa logið að bandarískri þingnefnd þegar hann var spurður um meint afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016. Eins hefur hann játað að hafa greitt tveimur konum fyrir að þegja um samband sitt við Trump.

New York Times segir Cohen hafa fallist á að veita „ítarlega og trúverðuga lýsingu“ á starfi sínu fyrir Trump. Er vitnisburður Cohens sagður geta skaðað ímynd forsetans frekar en orðið er, sem og að sýna enn frekar fram á lagalegar hremmingar Trumps. Cohen tilheyrði enda innsta hring Trumps og þekkir vel til þeirra mála sem nú eru til rannsóknar hjá Robert Mueller, sérstökum saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI vegna meintra afskipta Rússa af forsetakosningunum 2016 og mögulegra tengsla framboðs Trumps þar við.

Segir New York Times að svo kunni að fara að Cohen upplýsi brátt um málið eiðsvarinn í beinni útsendingu þingsins.

„Í framhaldi af loforði mínu að sýna samstarfsvilja og veita bandarísku þjóðinni svör hef ég fallist á beiðni formannsins Eiljah Cummings,“ sagði í yfirlýsingu frá Cohen, sem kvaðst „hlakka til að njóta þeirra forréttinda að fá pall til að veita ítarlega og trúverðuga lýsingu á atburðunum“.

Cohen var í lok síðasta árs dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir skattasvik og brot á lögum um fjármögnun kosningaherferða. Áður en dóm­ur­inn var kveðinn upp gagn­rýndi hann for­set­ann harðlega, en kvaðst líka bera ábyrgð á glæp­um sín­um „þar á meðal þeim sem for­seti Banda­ríkj­anna hef­ur verið bendlaður við“.

„Það var skylda mín að hylma yfir með hans sóðal­egu verknuðum,“ sagði Cohen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert