Fjárfesta í búnaði til að verjast drónum

Dróni á flugi. Mynd úr safni.
Dróni á flugi. Mynd úr safni. AFP

Allir stærstu flugvellir Bretlands hafa nú þegar fengið, eða munu á næstunni fá, búnað til að koma í veg fyrir flug dróna við flugvellina. BBC greinir frá þessu og segir stjórnendur Gatwick-flugvallarins í London nú þegar hafa eytt 5 milljónum punda í slíkan búnað, en drónaflug við flugvöllinn olli miklum truflunum á flugi og raskaði ferðaáætlunum 140.000 manns skömmu fyrir jól.

Greint var frá því fyrr í þessari viku að breski herinn hefði verið kallaður til er drónar sáust við Heathrow-flugvöll og ollu þar töfum.

Áður hafði varnarmálaráðherra Bretlands, Gavin Williamson, sagt það „ekki vera rétt“ að biðja breska flugherinn að bregðast við slíkum atvikum í framtíðinni. Sagði Williamson alla almenna flugvelli þurfa að fjárfesta í útbúnaði til að verjast drónum.

Stjórnendur Heathrow-flugvallar hafa nú tilkynnt að þeir muni fjárfesta í svipuðum búnaði og stjórnendur Gatwick.

Þá segir BBC stjórnvöld nú einnig vinna að því að koma sambærilegum búnaði fyrir við byggingar á borð við fangelsi, orkuver og hernaðarmannvirki. Búnaðurinn á að geta numið dróna, fylgst með flugi þeirra og jafnvel neytt þá til lendingar.

Breska lögreglan hefur einnig fengið auknar heimildir til að taka á ólöglegri notkun dróna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert