Pútín afhjúpar þætti úr fortíð sinni

Margt kvað á huldu um fortíð Pútíns Rússlandsforseta. Nú eru …
Margt kvað á huldu um fortíð Pútíns Rússlandsforseta. Nú eru áhugasamir þó ef til vill komnir skrefinu nær. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti svipti hulunni af kafla í lífi sínu er áður var á huldu þegar hann missti út úr sér að hann hefði farið fyrir stórskotaliði í sovéska hernum á sínum tíma.

Hann var að prófa fallbyssu í Péturs- og Pálsvirkinu í Sankti Pétursborg er hann lét ummælin falla, að því er heyrist í myndbandi sem yfirvöld í Kreml birtu á netinu, segir í Guardian.

„Ég fékk titilinn liðsforingi þegar ég var í stórskotaliðinu, sem liðsforingi sprengjuvörpuliðssveitar, sprengjuvarpan var 122 millimetra,“ er haft eftir Pútín.

Pútín liðsforingi eða Pútín í forsvari fyrir stórskotalið eru persónur í sögu forsetans sem ekki hefur verið fjallað um í opinberum ævisögulegum skrám um forsetann. Samkvæmt því sem segir í Guardian er vitað að hann starfaði fyrir KGB á tímum Sovétríkjanna.

Allir ófatlaðir sovéskir ungir menn hlutu herþjálfun á þessum árum og Pútín var ekki undanskilinn því. Líklegt er að hann sé einfaldlega að vísa til þeirrar tíðar, en það er titillinn sem kemur á óvart, liðsforingi.

Hjá Independent má sjá Pútín hleypa af skotinu en myndbandið nær ekki til þess hluta er hann lætur umrædd orð falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert