Þefaði uppi 116 kg af nashyrningshorni

Nashyrningur í Suður-Afríku. Rúmlega 1.000 nashyrningar eru drepnir í landinu …
Nashyrningur í Suður-Afríku. Rúmlega 1.000 nashyrningar eru drepnir í landinu ár hvert. AFP

Yfirvöld í Suður-Afríku hafa lagt hald á 116 kg af nashyrningshornum, sem smygla átti út úr landinu, eftir að hundurinn Lizzy þefaði smyglvarninginn uppi á OR Tambo-flugvellinum í Jóhannesarborg.

Lizzy er sporhundur hjá tollayfirvöldum á flugvellinum.

Nashyrningshornunum 36, sem metin eru á um 1,3 milljónir Bandaríkjadala, var vandlega pakkað inn í átta kassa ásamt hefðbundnum heimilisskrautmunum og dyramottum en sendingin átti að fara til Dubai að sögn tollayfirvalda.

Nashyringshornunum var vandlega pakkað inn.
Nashyringshornunum var vandlega pakkað inn. Ljósmynd/Suður-afrísk tollayfirvöld

BBC segir að þrátt fyrir að mikil áhersla sé lögð á baráttuna gegn veiðiþjófnaði sé hann enn mikið vandamál í landinu. Þannig jókst veiðiþjófnaður á nashyrningum um 9.000% á árabilinu 2007-2014.

Umhverfisverndarsamtök segja nokkuð hins vegar hafa dregið úr drápi á nashyrningum síðan 2014, en engu að síður séu rúmlega 1.000 nashyrningar drepnir í Suður-Afríku ár hvert.

Til að smygla nashyrningshornunum út úr landi lauma smyglarar þeim yfirleitt úr landi einu í einu, eða með því að brjóta þau niður í smærri stykki. Hátt verð fæst m.a. fyrir hornin á mörkuðum í Asíu þar sem þau eru vinsælt hráefni í óhefðbundin lyf.

Suður-afríski tollurinn segir Lizzy þá ekki vera eina sporhundinn sem notaður sé í baráttunni gegn smyglinu, því slíkt verkefni sé í gangi á landsvísu.

mbl.is