Ts­hisekedi lýstur forseti í Kongó

Felix Tshisekedi er formaður stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins, Lýðræðis- og framfarabandalagsins.
Felix Tshisekedi er formaður stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins, Lýðræðis- og framfarabandalagsins. AFP

Fel­ix Ts­hisekedi, son­ur fyrrverandi leiðtoga stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Austur-Kongó, hefur verið lýstur sigurvegari forsetakosninga í landinu af yfirkjörstjórn, en með fyrirvara þó.

Kjördagur var 30. desember og kynnti yfirkjörstjórn landsins bráðabirgðaúrslit kosninganna í morgun. Endanleg úrslit eiga að liggja fyrir á þriðjudag.  

21 var í framboði en ásamt Ts­hisekedi voru Emannu­el Ramaz­ani Shadary, fyrr­ver­andi inn­an­ríks­i­ráðherra lands­ins, og Mart­in Fayulu, fyrr­ver­andi for­stjóri olíu­fyr­ir­tæk­is, taldir sigurstranglegir.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum fékk Ts­hisekedi sjö milljónir atkvæða, Fayulu, sem kemur einnig úr röðum stjórnarandstöðunnar, 6,4 milljónir atkvæða og Shadary fékk 4,4 milljónir atkvæða.

Fayulu fullyrðir að niðurstöðurnar séu ekki samkvæmar sannleikanum. „Íbúar í Kongó munu ekki sætta sig við svik af þessu tagi. Felix Ts­hisekedi gat engan veginn fengið sjö milljónir atkvæða. Hvaðan komu þessi atkvæði?“ segir hann í samtali við BBC.

Standi þessi úrslit mun Ts­hisekedi taka við af Joseph Kablia, sem læt­ur af störf­um tveim­ur árum eft­ir að kjör­tíma­bili hans lauk, en hann hefur verið forseti Austur-Kongó frá 2001. Sam­kvæmt stjórn­ar­skránni má hann ekki bjóða sig aft­ur fram. Hin tveggja ára töf sem hef­ur orðið á kosn­ing­un­um hef­ur valdið blóðugum átök­um í land­inu.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti alla íbúa Austur-Kongó að forðast ofbeldi eftir að bráðabirgðaniðurstöðurnar voru kynntar.

Tshisekedi er formaður stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins, Lýðræðis- og framfarabandalagsins. Faðir hans, Etienne, stofnaði flokkinn árið 1982. Ts­hisekedi, sem er 55 ára gamall, tók við formennsku í flokknum þegar faðir hans lést í febrúar á síðasta ári.

Ef fram fer sem horfir verður þetta í fyrsta sinn sem friðsamleg og lýðræðisleg valdaskipti fara fram í landinu frá því Aust­ur-Kongó öðlaðist sjálf­stæði frá Belg­íu árið 1960. Ekki er þó víst að það verði niðurstaðan þar sem framkvæmd kosninganna hefur ítrekað verið gagnrýnd af eftirlitsaðilum og fjöldi tilkynninga hefur borist um vafasama atburði á kjörstöðum og talningamiðstöðvum.  

Stuðningsmenn Felix Tshisekedi bíða eftir niðurstöðum kosninganna.
Stuðningsmenn Felix Tshisekedi bíða eftir niðurstöðum kosninganna. AFP
mbl.is