Vinnustaður Hagen mögulega vaktaður

Tvær manneskjur sjást á gangi og ein á hjóli fyrir …
Tvær manneskjur sjást á gangi og ein á hjóli fyrir utan vinnustað Hagen og vill lögreglan ná tali af þeim. Skjáskot/VG

Norska lögreglan hefur óskað eftir því að ná tali af þremur manneskjum í tengslum við hvarf Anne-Elisa­beth Fal­kevik Hagen.

Anne-Elisabeth, sem er  68 ára göm­ul, var rænt af heim­ili sínu á hrekkja­vök­unni, 31. októ­ber, og hef­ur ekk­ert spurst til henn­ar síðan. Fyrst var greint frá mann­rán­inu í gær en nokkr­ir fjöl­miðlar vissu af hvarfi henn­ar sem og ná­grann­ar en farið var að beiðni lög­reglu um að greina ekki frá því til þess að styggja ekki mann­ræn­ingj­ana.

Þremenningarnir með stöðu vitnis

Manneskjurnar sjást á upptöku úr öryggismyndavél fyrir utan skrifstofu Toms Hagen, eiginmanns Anne-Elisabeth, sama dag og hún hvarf. Lögreglan hefur birt tvö myndskeið úr öryggismyndavél þar sem sést til þremenninganna. Í fyrra myndskeiðinu sést einn þeirra á gangi fyrir utan vinnustaðinn klukkan 7:36. Hann hverfur í skamma stund á bak við tré en snýr svo við og gengur sömu leið til baka. Skrifstofan er í svokallaðri Futurum-byggingu í Ósló. 

Í seinna myndskeiðinu, sem er tekið klukkan 8:00 sést önnur manneskja ganga sama göngustíg og sú fyrri. Einnig sést til hjólreiðamanns á stígnum og hefur lögreglan óskað eftir að ná tali af honum sömuleiðis en þremenningarnir hafa allir stöðu vitnis í málinu, að sögn lögreglu. 

Hér má sjá myndskeiðið í heild sinni.

Voru mögulega að vakta eiginmanninn

„Þetta er fyrst og fremst til að bera kennsl á þá og komast að því hvort þeir búi yfir einhverjum upplýsingum,“ segir Tommy Brøske, sem stýr­ir rann­sókn máls­ins, í samtali við norska fjölmiðilinn VG. Hann útilokar ekki að þremenningarnir, eða einhver þeirra, hafi verið að vakta vinnustað Hagen á meðan mannræningjarnir voru að verki á heimili hjónanna.

Lögreglumaðurinn Tommy Brøske fer með rannsókn málsins.
Lögreglumaðurinn Tommy Brøske fer með rannsókn málsins. AFP

Brøske staðfesti einnig að skilaboð frá ræningjunum hafi fundist á heimili hjónanna en þar er eiginmanninum meðal annars hótað.

Lög­regl­an tel­ur að um at­vinnu­menn sé að ræða en mann­ræn­ingjarn­ir hafa farið fram á að fá greidd­ar 9 millj­ón­ir evra, 1,2 millj­arða króna, í lausn­ar­fé og fjár­hæðin verði greidd í raf­mynt sem nefn­ist monero.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert