Fannst á lífi eftir 87 daga

Jayme Closs.
Jayme Closs. Ljósmynd FBI Milwaukee

Þrettán ára gömul stúlka sem hvarf í Wisconsin á sama tíma og foreldrar hennar voru myrtir á heimili fjölskyldunnar er fundin á lífi, að sögn bandarísku alríkislögreglunnar. Boðað hefur verið til blaðamannafundar síðar í dag vegna málsins.

Jayme Closs fannst síðdegis í gær að sögn lögreglu og sá sem er grunaður um að hafa myrt foreldra hennar er í haldi. „Við hétum því að koma Jayme heim og í kvöld efndum við loforðið,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni. Nánari upplýsingar verða veittar á blaðamannafundinum sem hefst klukkan 10 að staðartíma, klukkan 16 að íslenskum tíma. 

Í frétt BBC kemur fram að mánudaginn 15. október hafi verið hringt í Neyðarlínuna úr farsíma á heimili fjölskyldunnar. Enginn hafi talað í símann en mikill hávaði heyrðist á bak við. Þegar lögregla kom á vettvang fjórum mínútum síðar var Jayme horfin og enginn á lífi á staðnum. Skotvopnið sem notað var við morðið á James og Denise Closs var einnig horfið.

Á blaðamannafundi nokkrum dögum síðar greindi lögreglan frá því að borist hefðu um 400 ábendingar frá almenningi og stúlkunnar væri leitað en henni hefði verið rænt af heimili sínu snemma á mánudagsmorgninum. Ekki væri vitað hver hefði verið þar að verki en sá væri líklega vopnaður byssu. 

Að sögn lögreglustjórans í Barron-sýslu í Wisconsin er Jayme hjá ættingjum en samkvæmt fréttum fjölmiðla á staðnum var hún fyrst flutt á sjúkrahús til skoðunar. 

Heimildir KSTP útvarpsstöðvarinnar herma að unglingsstúlka hafi leitað til konu sem var úti að ganga með hund sinn í bænum Gordon í Wisconsin og sagt að foreldrar hennar hafi verið myrtir. Lögreglan bar strax kennsl á Jayme og 11 mínútum síðar var maður handtekinn í bænum. 

Frétt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert