„Höfum haft mannrán á dagskránni“

Lögregla hefur komið sér upp færanlegri vettvangsstöð við heimili Hagen-hjónanna …
Lögregla hefur komið sér upp færanlegri vettvangsstöð við heimili Hagen-hjónanna og leggur nótt við nýtan dag í rannsókn þess sem Kripos-lögreglan kallar „tígrisrán“ eða tiger kidnapping. Ljósmynd/AFP

„Kripos hefur, í samstarfi við lögregluembættin og öryggisráð viðskiptalífsins [Næringslivets sikkerhetsråd, NSR], haft tígrisrán [e./n. tiger kidnapping] til skoðunar með það fyrir augum að búa til verklagsreglur sem fjalla um það hvernig lögreglunni og aðilum viðskiptalífsins beri að takast á við mál af þessu tagi.“

Þetta segir Eivind Borge, deildarstjóri taktískrar rannsóknardeildar (n. taktisk etterforskningsavdeling) norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos í samtali við mbl.is í dag, inntur eftir því hvort rannsóknarlögreglan hafi á einhvern hátt verið búin undir að standa frammi fyrir mannráni með kröfu um lausnargjald í Noregi.

Með tígrisráni vísar Borge til hugtaks sem notað hefur verið um mannrán eða gíslatöku í fjárhagslegu ábataskyni og er skilgreint sem eftirfarandi:

„Brottnám eða gíslataka eins eða fleiri aðila, eða fullyrðing um að hafa framkvæmt slíkt, í því augnamiði að þvinga starfsmann, ættingja eða einhvern annan til að veita aðgengi að reiðufé eða öðrum fjárhagslegum verðmætum í vörslum stofnunar eða fyrirtækis.“

Mannrán af þessu tagi eru sjaldnast, nánast aldrei, framkvæmd af hvatvísi eða sem skyndihugdetta heldur alla jafna þaulskipulögð fyrir fram, oft með löngum fyrirvara. Borge telur nær öruggt að brotthvarf Anne-Elisabeth Falkevik Hagen af heimili hennar í Lørenskog 31. október í fyrra falli undir framangreinda skilgreiningu:

„Þetta brottnámsmál ber mörg einkenni þess sem við köllum tígrisrán og aðferðafræðin sem þarna er beitt er vel þekkt erlendis frá. Þess vegna höfum við haft mannrán og svipuð atvik á dagskránni hjá okkur nú síðustu ár,“ segir Borge og nefnir mannrán í Belgíu, Frakklandi og Svíþjóð sem dæmi um mál sem Kripos og öryggisráð viðskiptalífsins hafi haft til hliðsjónar við drög að verklagsreglum í mannránsmálum.

Stærð málsins kallar á endurmat

Hvað með framtíðina, nú þegar raunverulegt mál af þessu tagi skellur fyrirvaralaust á norskri þjóð, munu Kripos og almenn lögregluembætti landsins grípa til aðgerða til að draga úr hættu á að slíkt endurtaki sig?

„Mál af þessum toga og af þessari stærðargráðu verða alltaf til þess að farið er í að meta hlutina upp á nýtt og taka þá til alvarlegrar umræðu,“ segir Borge og bætir því við að komi það upp úr kafinu í ljósi nýrrar þekkingar og atburða að einhvers konar vanmat hafi átt sér stað verði auðvitað ráðist í að bæta úr aðferðafræði og forvörnum í samræmi við það. „En ég get í raun ósköp lítið tjáð mig um það enn sem komið er,“ segir hann.

Mál Hagen-hjónanna er algjört forgangsmál norsku lögreglunnar sem hefur lagt nótt við nýtan dag síðan á hrekkjavöku við að reyna að grafa upp einhverja vitneskju um örlög hinnar 68 ára gömlu Falkevik Hagen sem hvarf sporlaust af heimili sínu þar sem krafa um níu milljóna evra lausnargjald beið eiginmannsins, fjárfestisins Tom Hagen, er hann sneri heim frá vinnu. Með kröfunni fylgdi hótun um að eiginkona hans yrði umsvifalaust ráðin af dögum hefði hann samband við lögreglu og fóru því fyrstu fundir Hagen og lögreglunnar fram með þeim hætti að hann hitti óeinkennisklædda lögreglumenn á bensínstöð nokkrum sinnum auk þess sem óeinkennt tæknilið lögreglu rannsakaði heimili hjónanna í 14 sólarhringa í leit að vísbendingum.

„Eins og sögusvið amerísks reyfara“

Stjórnandi rannsóknarinnar af hálfu lögreglunnar í Ósló, Tommy Brøske, sagði á blaðamannafundi síðdegis í dag að lögreglu hefðu borist rúmlega 300 vísbendingar í málinu frá almenningi og væri allt kapp lagt á að rannsaka þær sem hald virtist í. Norska ríkisútvarpið NRK ræddi í aðalfréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi við nokkra íbúa Lørenskog sem eru í hreinu áfalli og lét kona nokkur í hópi viðmælenda þau orð falla að það væri skelfilegt og óhugsandi að litla kyrrláta bæjarfélagið þeirra væri skyndilega orðið líkast sögusviði amerísks reyfara. Einnig ræddi NRK við bæjarstjórann Ragnhild Bergheim sem sagðist miður sín yfir brotthvarfi Falkevik Hagen.

Umfang rannsóknar Hagen-málsins minnir að mörgu leyti á eina stærstu sakamálarannsókn Noregs hin síðari ár sem fylgdi í kjölfar þess er David Toska og hópur hans rændu NOKAS-reiðufjárþjónustuna í Stavanger 5. apríl 2004, skutu þar lögregluþjón til bana og hlutu samanlagt hátt í 200 ára fangelsisdóm fyrir það sem enn þann dag í dag er stærsta bankarán Noregssögunnar. Eivind Borge hjá Kripos kýs þó að tjá sig ekki um samanburð á umfangi þessara rannsókna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert