Ný ríkisstjórn í Svíþjóð í burðarliðnum

Annie Lööf, formaður Miðflokksins.
Annie Lööf, formaður Miðflokksins. AFP

Annie Lööf, formaður Miðflokksins í Svíþjóð, segir að flokkurinn muni styðja Stefan Löfven, leiðtoga Sósíaldemókrataflokksins, sem áframhaldandi forsætisráðherra landsins í nýrri ríkisstjórn.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag. Allt útlit er fyrir að nýja ríkisstjórnin í landinu verði tveggja flokka stjórn skipuð Sósíaldemókrataflokknum og Umhverfisflokknum sem njóti stuðnings Miðflokksins og Frjálslyndra. Þar með mun margra mánaða stjórnarkreppu ljúka í Svíþjóð. 

Miðflokkurinn greiddi atkvæði gegn kjöri Löfven í desember en núna er annað hljóð í strokknum. „Við mælum með því að stjórn flokksins leyfi það að Stefan Löfven verði kjörinn forsætisráðherra í atkvæðagreiðslunni í næstu viku,“ sagði hún.

Sextán blaðsíðna drög að stjórnarsáttmála hafa verið lögð fram af flokkunum. 

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP
mbl.is