„Þetta er Jayme Closs!“

Jayme Closs.
Jayme Closs. AFP

Kristin Kasinskas var heima hjá sér þegar barið var á útidyrahurðina síðdegis í gær. Þegar hún opnaði dyrnar var nágrannakona hennar þar fyrir utan með horaða stúlku með ógreitt hár og í allt of stórum skóm við hlið sér.

„Þetta er Jayme Closs!“ sagði nágrannakonan, samkvæmt frásögn Kasinskas í viðtali við Star Tribune í Minneapolis. „Hringdu í neyðarlínuna!“ 

Jayme Closs hafði verið saknað í 87 daga en hún hvarf af heimili sínu 15. október, sama dag og lögreglan fann foreldra hennar látna á heimili þeirra skammt frá Barron, Wisconsin. Stúlkan, sem er 13 ára gömul, fannst í bænum Gordon í gær, í um 113 km fjarlægð frá heimili sínu.

Nágrannakonan var úti að ganga með hundinn þegar Jayme kom til hennar og bað um hjálp. Á meðan þær biðu á heimili Kasinkas eftir sjúkraliði og lögreglu buðu þær stúlkunni vatn og mat en hún neitaði. Það eina sem hún vildi var að faðma hundinn. Tíu mínútum eftir að lögregla kom á vettvang klukkan 17 í gær var búið að handtaka mann sem er grunaður um að hafa skotið foreldra Jayme til bana og rænt henni. 

Allt frá því Jayme hvarf hefur lögregla talið að hún væri í hættu. Daginn sem hún hvarf barst neyðarlínunni dularfullt símtal þar sem ekkert var sagt en hávaði heyrðist á bak við. Þegar starfsmaður neyðarlínunnar hringdi til baka kom sjálfvirkur símsvari um að Denise Closs ætti símann, en hún er móðir Jayme. 

Þegar lögregla kom á vettvang svaraði enginn þannig að lögreglan braust inn á heimilið og fann lík Closs-hjónanna. Talið er að Jayme hafi verið heima þegar foreldrar hennar voru myrtir. 

Stúlkunnar hefur verið leitað af þúsundum sjálfboðaliða og gríðarlegt magn ábendinga barst til lögreglu en alríkislögreglan brá á það ráð að bjóða þeim fé sem gæti veitt upplýsingar um hvar hana væri að finna. 

Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar síðar í dag þar sem væntanlega verður upplýst nánar um málið. 

Frétt CNN

mbl.is