Yfirmaður Huawei í Póllandi handtekinn

Forsvarsmenn Huawei hafa ítrekað hafnað ásökunum um leynileg tengsl við ...
Forsvarsmenn Huawei hafa ítrekað hafnað ásökunum um leynileg tengsl við kínversk stjórnvöld. Mynd úr safni. AFP

Pólska öryggislögreglan hefur handtekið kínverskan og pólskan mann sem grunaðir eru um njósnir að sögn pólskra fjölmiðla.

Kínverjinn er sagður vera yfirmaður söludeildar kínverska samskiptafyrirtækisins Huawei í Póllandi, að því er ríkissjónvarpsstöðin TVP greinir frá. Stjórnendur Huawei neituðu í samtali við BBC að tjá sig um málið.

Huawei hefur verið mikið í sviðsljósinu á alþjóðavettvangi undanfarið og hafa stjórnvöld nokkurra ríkja lýst yfir áhyggjum af því hvort vörur Huawei séu öruggar.

Pólverjinn sem var handtekinn heitir Piotr D að sögn TVP og á áður að hafa verið hátt settur hjá ABW, leyniþjónustu sem fer með innanlandsmál í Póllandi. Maðurinn er hins vegar nú sagður starfa innan fjarskiptaiðnaðarins.

Er Piotr D sagður hafa hætt störfum hjá ABW í kjölfar ásakana um spillingu, en hann hafi þó aldrei verið ákærður.

Dómstóll í Varsjá féllst í gær á beiðni saksóknara um að mennirnir sæti þriggja mánaða gæsluvarðhaldi. Verði þeir fundnir sekir um njósnir eiga þeir yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsisdóm.

Hafa miklar áhyggjur af handtökunum

Í yfirlýsingu frá kínverska utanríkisráðuneytinu segir að kínversk yfirvöld hafi „miklar áhyggjur“ af handtökunum, en húsleit er einnig sögð hafa verið gerð á skrifstofum Huawei í Póllandi, sem og á skrifstofum Orange-símafyrirtækisins í Póllandi, en þar á Piotr D að hafa starfað. Þá var gerð húsleit á heimilum mannanna.

Forsvarsmenn Huawei segja í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér að fyrirtækið „starfi í samræmi við öll viðeigandi lög og reglugerðir í þeim löndum þar sem það starfar og að það krefjist þess sama af starfsfólki sínu“.

Orange vann á síðasta ári með Huawei að því að koma upp 5G-farsímaneti í Póllandi, en yfirvöld á Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Bandaríkjunum hafa bannað Huawei að koma að gerð 5G-farsímanets í ríkjunum.

Fullyrðingar hafa verið uppi um að kínversk stjórnvöld noti fyrirtækið sem skálkaskjól til að njósna um samkeppnisþjóðir sínar. Forsvarsmenn Huawei hafa hins vegar ítrekað hafnað ásökunum um leynileg tengsl við kínversk stjórnvöld.

mbl.is
Gefins - áttu klink sem þú mátt missa?
Kattholt þiggur með þökkum smámynt (hvaðan sem er). Þetta fer til að fjármagna...
110 fm sumarhús á Suðurlandi..
Sumarhús í Biskupstungum til sölu. Eru 2 hús, annað fullbúið og hitt með þrjú sé...
Ertu að spá í framtíðinni? spamidill.is
Einkatímar í spámiðlun og Reiki heilun. í persónu eða gegnum svarbox spamidill.i...
Fasteignir
Leitar þú að fasteignasala? Ég sel fyrir þig. Vertu í sambandi. Sigrún Ma...