350 ábendingar á einum sólarhring

Tommy Brøske yfirlögregluþjónn segir mikinn fjölda ábendinga hafa borist vegna …
Tommy Brøske yfirlögregluþjónn segir mikinn fjölda ábendinga hafa borist vegna málsins, en gefur ekkert upp um stakar ábendingar. AFP

Um 350 ábendingar hafa borist lögreglunni í Noregi frá því í gær og einn verið yfirheyrður í tengslum við mannránsmál sem þar er til rannsóknar. Í heild hafa yfirvöldum borist yfir 500 ábendingar frá almenningi vegna málsins, segir í umfjöllun Verdens gang.

Margar ábendingar hafa varðað hugsanlega felustaði og hafa einnig borist ábendingar erlendis frá, en lögreglan hyggst ekki tjá sig um einstakar ábendingar.

Tíu vikur eru síðan Anne-Elisabeth Hagen var rænt og hafa ræningjarnir krafist 85,9 milljóna norskra króna sem lausnargjalds, andvirði 1,2 milljarða króna.

Hjólreiðamaður sem sást á upptöku öryggismyndavélar er fundinn að sögn lögreglu, en hann gaf sig fram eftir að lögreglan birti myndir af mannaferðum nálægt heimili Hagen daginn sem hún hvarf og biðlaði til almennings um að bera kennsl á þrjá menn.

„Hjólreiðamaðurinn gaf sig fram við lögreglu síðdegis á föstudag. Maðurinn var yfirheyrður á föstudagskvöld og tengist ekki málinu,“ er haft eftir Tommy Brøske yfirlögregluþjóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert