Elti slökkviliðsmann með kaffivél

Bærinn Nesbyen í Buskerud er við rauða merkið. Þar varð …
Bærinn Nesbyen í Buskerud er við rauða merkið. Þar varð maður á þrítugsaldri tilefni þriggja lögregluútkalla á 55 mínútum um miðja nótt. Skjáskot/Google Maps

Maður nokkur frá Bergen endaði í fangageymslum lögreglu í Drammen í Buskerud, suðvestur af Ósló, í gærmorgun eftir að hafa gengið mikinn berserksgang í smábænum Nesbyen þar skammt frá í þungri lyfjavímu.

Atburðarásin hófst með því að maðurinn, sem er á þrítugsaldri, var staddur í næturlestinni sem gengur frá Bergen til Óslóar. Varð hann þar mjög viðskotaillur, hafði uppi öskur og köguryrði í garð samferðamanna sinna og lestarvarða og hrækti auk þess í andlit eins varðanna. Lestarstjóri ákveður að koma manninum úr lestinni, stöðvar á brautarstöðinni í Nesbyen þar sem farþeganum er varpað á dyr. Lestarstjóri hringir í lögreglu og tilkynnir atburðinn:

Fyrsta lögregluútkall: 02:35

Björgvinjarbúinn lætur ekki þar við sitja heldur fer að elliheimili bæjarins og brýst þar inn umsvifalaust. Þar vakti hann fjölda vistmanna og olli miklum ótta með öskrum og fyrirgangi sem lauk með því að hann þreif í brunaboða og ræsti brunavarnakerfi heimilisins með tilheyrandi hávaða.

Slökkvilið bæjarins kom fljótt á vettvang og mætti þá berserknum sem hafði tekið kaffivél úr eldhúsinu traustataki og elti slökkviliðsmann á harðahlaupum með hana um leið og hann reyndi ítrekað að slá hann í höfuðið með vélinni. Hringt er í lögreglu:

Annað lögregluútkall: 03:10

Við þetta útkall rjúka lögreglubifreiðar af stað frá næstu lögreglustöð sem er í 41 kílómetra fjarlægð í bænum Gol. Er þarna var komið sögu hefur maðurinn hugsanlega ákveðið að yfirgefa Nesbyen og heldur aftur á brautarstöðina. Þar brýtur hann fjölda gluggarúða í stöðvarbyggingunni og endar á því að taka sér stöðu á brautarteinunum og stöðva með því næturlestina á leið í vesturátt, til Bergen. Lestarstjóri tekur upp símann:

Þriðja lögregluútkall: 03:30

Lögregla mætir að lokum á staðinn eftir rúmlega 40 kílómetra forgangsakstur, handtekur manninn og ekur rakleiðis með hann til Drammen þar sem næstu nothæfu fangageymslur er að finna. Reyndist hinn handtekni í svo kirfilegri vímu að ómögulegt reyndist að yfirheyra hann, en þegar persónuskilríki fundust á honum kom í ljós að hann var eftirlýstur í vesturumdæmi lögreglunnar fyrir að mæta þar ekki til lögregluyfirheyrslu sem hann hafði verið boðaður í vegna nokkurra brota.

Dúsir hann nú í varðhaldi lögreglunnar í Drammen þar til vesturumdæmið sendir mann að sækja hann eftir helgi og má hann búast við að þurfa að svara til saka fyrir brot í báðum umdæmum.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert