Morðingjar Khashoggi sæti ábyrgð

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, í …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, í Ríad í dag. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hyggst biðja krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, að tryggja að morðingjar blaðamannsins Jamal Khashoggi verði látnir sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar.

Khashoggi, sem var pistla­höf­und­ur fyr­ir Washingt­on Post, var myrt­ur á ræðismanns­skrif­stofu Sádi-Ar­ab­íu í Ist­an­búl í Tyrklandi 2. októ­ber. Yf­ir­völd í Tyrklandi telja að dráps­sveit hafi verið send til Ist­an­búl til að ráða Khashoggi af dög­um og hef­ur Er­dog­an Tyrk­lands­for­seti sagt að fyr­ir­skip­un um morðið hafi komið frá æðstu röðum stjórn­valda í Sádi-Ar­ab­íu. Því þverneita stjórnvöld í Sádi-Arabíu. 

Pompeo er staddur í Mið-Austurlöndum í opinberum erindagjörðum og á fund með sádi-arabískum embættismönnum í dag. „Við munum halda áfram samtali okkar við krónprinsinn og Sáda um að tryggt verði að einhver verði látinn sæta ábyrgð,“ sagði Pompeo á blaðamannafundi í Katar áður en hann hélt áleiðis til Sádi-Arabíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert