Neitar að leyna samtölunum við Pútín

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Vladimír Pútin Rússlandsforseti hafa fimm …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Vladimír Pútin Rússlandsforseti hafa fimm sinnum ræðst við. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur alfarið hafnað fullyrðingum Washington Post um að hann hafi neitað að upplýsa ríkisstjórn sína um samræður sínar við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Sagði Trump í símaviðtali við fréttastofu Fox-sjónvarpsstöðvarinnar í gær að slíkar fullyrðingar væru „fáránlegar“, en Washington Post segir forsetann hafa gengið ansi langt til að fela hvað þeim Pútín fór á milli. Þannig hafi Trump m.a. haldlagt punkta þýðanda síns og skipað honum að segja ekki hvað fram fór á fundinum.

Sjálfur segist Trump hafa átt „frábærar viðræður“ við Pútín í Helsinki í júlí í fyrra.  „Ég er ekki að fela neitt,“ sagði Trump við Fox. „Mér gæti ekki verið meira sama.“

Segist Trump hafa átt samræður líkt og allir forsetar geri. „Maður situr með forseta ýmissa landa. Við ræddum um Ísrael og að tryggja öryggi þar og fjölmargt annað. Ég er ekki að fela neitt. Mér gæti ekki verið meira sama. Þetta er alveg fáránlegt,“ bætti hann við. „Hver sem er hefði getað hlustað á þennan fund.“

Washington Post segir hins vegar ekkert afrit vera til af fimm viðræðum Trumps við Pútín undanfarin tvö ár. Eru heimildamenn blaðsins bæði núverandi og fyrrverandi embættismenn Bandaríkjastjórnar.

Trump segir við Fox að „engir snertifletir“ hefðu verið með kosningaherferð sinni og meintum afskipta Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016.

New York Times greindi frá því í gær að örfáum dögum eftir að Trump rak James B. Comey úr embætti forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI hafi starfsmenn stofnunarinnar farið að hafa áhyggjur af hegðun forsetans og hafið að rannsaka hvort hann hefði verið að vinna með Rússum gegn rússneskum hagsmunum.

Er Fox spurði forsetann hvort hann hefði einhvern tímann gengið erinda rússneskra stjórnvalda sagði Trump, án þess þó að svara spurningunni, að þetta væri mest móðgandi spurning sem hann hefði fengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert