Skoða Huawei-bann í Póllandi

Kínverska fyrirtækið Huawei hefur verið bendlað við njósnir víða og …
Kínverska fyrirtækið Huawei hefur verið bendlað við njósnir víða og gætu vörur þess verið bannaðar í Póllandi. AFP

Pólsk yfirvöld gætu gripið til þess að banna öllum opinberum stofnunum landsins að nota samskiptabúnað frá kínverska fyrirtækinu Huawei, eins og þegar hefur verið gert í Bandaríkjunum. Þetta hefur Reuters eftir hátt settum embættismanni í Póllandi.

Stjórnvöld í landinu skoða nú einnig leiðir til þess að herða löggjöf sem myndi heimila stjórnvöldum að banna eða takmarka aðgengi að vörum frá fyrirtækjum sem talin eru ógna öryggi.

Haft er eftir Joachim Brudzinski, innanríkisráðherra Póllands, að hann telji mikilvægt að Evrópusambandið og NATO komist að sameiginlegri afstöðu til Huawei og hvort fyrirtækinu eigi að vera neitað um aðgang að mörkuðum.

Hugmyndirnar koma í kjölfar þess að pólska öryggislögreglan handtók tvo starfsmenn Huawei, sem framleiðir samskiptabúnað, vegna gruns um njósnir. Einn mannanna var kínverskur ríkisborgari og yfirmaður Huawei í Póllandi.

Fleiri ríki hafa gert athugasemdir við Huawei. Þá hafa nokkrir starfsmenn fyrirtækisins verið handteknir í Kanada, þar á meðal fjármálastjórinn, og hafa bandarísk yfirvöld bannað opinberum stofnunum landsins að nota varning frá Huawei.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur einnig viðrað þá hugmynd að banna bandarískum fyrirtækjum að notast við varning frá Huawei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert