Telur hægt að tryggja öryggi Kúrda

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kveðst bjartsýnn á að hægt verði …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kveðst bjartsýnn á að hægt verði að tryggja öryggi Kúrda í Sýrlandi. AFP

Mike Pompeo, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segist bjartsýnn á að hægt verði að ná samkomulagi við tyrknesk stjórnvöld um að tryggja öryggi varnarsveita Kúrda í Sýrlandi, eftir að Bandaríkjaher heldur þaðan á brott. BBC greinir frá.

Pompeo lét þessi orð falla á fundi með fréttamönnum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eftir að hafa rætt símleiðis við varnarmálaráðherra Tyrkja.

Bandaríkjaher hefur barist með Kúrdum gegn vígasveitum Ríkis íslams í Sýrlandsstríðinu. Tyrknesk stjórnvöld telja YPG, varnarsveitir Kúrda, hins vegar vera hryðjuverkasamtök og hafa heitið því að brjóta þau á bak aftur.

Recep Tayip Erdogan Tyrklandsforseti hefur raunar ítrekað lýst því yfir að Tyrkir muni fljótlega ráðast gegn varnarsveitum Kúrda og að það verði gert, jafnvel þótt Bandaríkjaher verði enn á svæðinu þegar innrásin hefst. Hafa slík ummæli enn frekar á spennuna milli bandarískra og tyrkneskra stjórnvalda. Hafa Tyrkir enn fremur varað Frakka við að reyna að verja varn­ar­sveit­ir Kúrda í Sýr­landi. 

Pompeo er nú á ferð um Mið-Austurlönd til að reyna að róa bandamenn Bandaríkjanna í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti óvænt í síðasta mánuði að hann hygðist kalla hersveitir Bandaríkjanna heim frá Sýrlandi.

Sagði Pompeo Bandaríkin virða rétt Tyrkja til að verja land sitt gegn hryðjuverkamönnum. „Við vitum líka að þeir sem börðust við hlið okkar allan þennan tíma eiga líka skilið að öryggi þeirra sé tryggt,“ sagði Pompeo. Kvaðst hann hafa rætt málið við Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrkja. „Það á enn eftir að ganga frá mörgum atriðum, en ég er bjartsýnn á að við getum komist að góðri niðurstöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert