Parísardraumurinn endaði með skelfingu

Lauru Sanz hafði alltaf dreymt um að heimsækja París. Á föstudaginn kom eiginmaður hennar, Luis, henni á óvart með því að segja henni að hann ætlaði að bjóða henni í rómantíska helgarferð en þau Laura og Luis hafa verið saman í tuttugu ár eða frá því hún var sextán ára gömul.

Luis hafði fengið mæður þeirra til þess að taka að sér börnin þrjú en þau eru tíu, fimm og þriggja ára gömul. Laura, sem starfaði í matvöruverslun í smábænum Burguillos í útjaðri spænsku borgarinnar Toledo, hafði ekki hugmynd um ákvörðunarstaðinn fyrr en þau komu á flugvöllinn á föstudaginn. Þetta var hennar fyrsta ferðalag út fyrir landsteinana en um leið það síðasta.

Þau vöknuðu snemma á laugardagsmorgninum og hún vildi reka eiginmanninn á fætur fyrir klukkan 9 til þess að geta fengið sér morgunmat á Mercure Paris Opéra Lafayette-hótelinu áður en þau færu í gönguferð um borgina. Á sama tíma og hún stóð við gluggann á hótelherberginu varð gríðarleg sprenging í bakaríinu hinum megin við götuna.

„Laura var að klæða sig við gluggann og gluggatjöldin voru dregin fyrir. Luis Miguel var enn í rúminu þegar þetta gerðist en dóttir mín varð fórnarlamb sprengingarinnar,“ segir faðir hennar í viðtali við El País.

Hann segir að glugginn og rammi hans hafi þeyst inn í herbergið og lent á höfði hennar. Ef þetta hefði gerst tveimur mínútum fyrr eða seinna þá væri dóttir hans enn á lífi, segir faðir Lauru í samtali við El País.

Þrír til viðbótar létust í gassprengingunni, kona sem bjó á bak við bakaríið og tveir slökkviliðsmenn sem voru að störfum á vettvangi.

Um fimmtíu manns slösuðust í sprengingunni sem varð í bakaríinu við Rue de Trévise í níunda hverfi. Flytja þurfti um 150 íbúa í húsinu og nærliggjandi húsum á brott vegna skemmda sem urðu á húsum í nágrenninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert