Fjarstýrði árásum gegn tugum stúlkna

Maðurinn sat heima í Noregi við tölvuna og fylgdist með …
Maðurinn sat heima í Noregi við tölvuna og fylgdist með er stúlkunum var misþyrmt. AFP

Dómstóll í Sunnmæri í Noregi hefur dæmt karlmann á sjötugsaldri í tólf og hálfs árs fangelsi fyrir að fjarstýra árásum gegn 65 filippseyskum stúlkum. Norska ríkisútvarpið NRK fjallar um málið og segir dóminn þann þyngsta sem fallið hefur þar í landi vegna netglæps.

Brot mannsins, sem er búsettur í Sunnmøre í vesturhluta Noregs, spanna tveggja og hálfs árs tímabil og var það bandaríska alríkislögreglan FBI sem tilkynnti norskum yfirvöldum um manninn.

Er hann sagður hafa pantað árásir gegn 65 filippseyskum stúlkum, sem sumar hverjar voru mjög ungar. Alvarlegustu brotin voru framin gegn stúlku sem var á bilinu 8-10 ára gömul og varði sú árás í 14 mínútur. Á meðan sat maðurinn heima í Noregi og fylgdist með því sem fram fór í gegnum tölvuna. NRK segir manninn einnig hafa verið sakfelldan fyrir árás á þriggja ára gamla stúlku og varði sú árás í 40 mínútur.

Segir í úrskurði dómsins að maðurinn hafi með gjörðum sínum átt þátt í að viðhalda sérlega hrottalegum kynlífsiðnaði. Þá eru aðstæðurnar sem fórnarlömbin bjuggu við sagðar hafa verið „ómannúðlegar“ og maðurinn hafi tekið þátt í að viðhalda þeim.

Maðurinn neitaði upphaflega sök á alvarlegustu brotunum, en játaði síðar brot sín. Sagði hann fyrir réttinum í síðustu viku að hann hefði sjálfur átt í persónulegum erfiðleikum þegar fyrstu brotin voru framin. Hann hafi þá farið á erlenda vefsíðu fyrir fullorðna þar sem hann var fljótlega kominn í samband við konur sem sögðust vera mæður stúlknanna og sem hvöttu hann til að panta ofbeldi gegn þeim. Fyrir þetta greiddi hann um 120 íslenskar krónur fyrir mínútuna.

Ákæran gegn manninum var 13 síðna löng og í 129 liðum og lagði lögregla í réttinum fram gögn sem benda til þess að maðurinn hafi eytt tæpri hálfri milljón norskra króna eða um sjö milljónum íslenskra króna í árásirnar gegn stúlkunum. Maðurinn staðfesti upphæðina fyrir dómi, en sagðist sjálfur hafa viljað hjálpa konunum með fé til að fæða og mennta stúlkurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert