Mikið áfall fyrir May

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. mbl.is/Hari

„Munurinn er meiri en menn gátu ímyndað sér,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, í samtali við mbl.is vegna atkvæðagreiðslunnar í neðri deild breska þingsins í kvöld þar sem samningur Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu var felldur með miklum mun. Þannig greiddu 432 þingmenn atkvæði gegn samningnum en 202 með honum.

„Það að þriðjungur þingmanna hennar eigin flokks kjósi ekki með May er náttúrulega mikið áfall,“ segir Eiríkur aðspurður. Það blasi hins vegar við að hún hafi ekki í hyggju að hverfa sjálfviljug úr embætti þrátt fyrir ósigurinn. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur lagt fram tillögu um vantraust á ríkisstjórn May sem tekin verður fyrir á morgun. Eiríkur segir aðspðurður alls óvíst hvernig sú atkvæðgreiðsla kunni að fara.

„Það er ekki á vísan að róa í þeim efnum. Það er eitt að fella grundvallarmál eigin flokks eins og þetta en annað að samþykkja vantraust á eigin ríkisstjórn,“ segir Eiríkur og vísar þar til þingmeirihlutans sem ríkisstjórnin styðst við. Hins vegar hafi Corbyn sagt að hann ætlaði ekki að leggja vantrauststillögu fram fyrr en hann væri viss um að hún næði fram að ganga. Hins vegar væri ljóst að þetta væri mikið veðmál hjá honum.

Eiríkur bendir á að ríkisstjórn Íhaldsflokksins sem boðaði til þjóðaratkvæðisins 2016, þar sem meirihlutinn samþykkti útgöngu úr Evrópusambandinu, hafi aldrei lagt niður hvað ætti að gerast ef útganga yrði samþykkt. Stjórnin hafi einfaldlega ætlað að fá breska kjósendur til þess að staðfesta áframhaldandi veru í sambandinu en síðan hafi niðurstaðan orðið önnur sem stjórnin hafi á engan hátt verið búin undir eins og komið hafi á daginn.

„Þetta er allt orðið samofið

„Bretar eru einfaldlega að reyna að gera alveg ómögulegan hlut. Það er að njóta efnahagslegs ávinnings sem hlýst af þessu kerfisbundna og nána samstarfi Evrópuríkja og ganga út úr því á sama tíma. Þetta tvennt gengur bara mjög illa saman og það er þarna sem verkurinn í málinu liggur. Þetta er í rauninni ekkert mikið flóknara en það,“ segir Eiríkur. Með því að fara úr Evrópusambandinu væru Bretar að þessum ávinningi.

Vandamálið við að fara úr Evrópusambandinu, án þess að ná samningi um útgönguna við sambandið, væri það að svo miklir hagsmunir væru tengdir veru Bretlands í því þannig að margir ættu eftir að finna fyrir því, að minnsta kosti til skamms tíma, ef sú yrði niðurstaðan. „Þetta er allt orðið samofið.“ Spurður um framhaldið segir hann að ein leið í stöðunni sem rædd hafi verið væri borgaraþing til að leysa úr málinu.

Hins vegar segir hann aðspurður ljóst að enginn meirihluti sé eins og staðan er í dag í breska þinginu fyrir einhverri ákveðinni leið til þess að standa að útgöngunni úr Evrópusambandinu. Fyrir vikið gæti niðurstaðan orðið sú að Bretar færu úr sambandinu án þess að semja sérstaklega um það við það enda þegar í breskum lögum að Bretland gangi úr sambandinu 29. mars með eða án samnings.

„Eins og staðan er núna, verði ekkert að gert, þá fara Bretar einfaldlega út samningslausir. Þannig að til þess að stöðva það þarf aðgerð,“ segir Eiríkur. Hins vegar væri of snemmt að fullyrða í þeim efnum. Bretar væru ekki farnir úr Evrópusambandinu enn og enn væri tími til þess að lenda málinu. 

AFP
mbl.is
Snjóblásarar
Öflugir snjóblásarar fyrir þrítengi á traktora allt að 240cm breiðir. Jarðtætar...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...