Skyndibitaveisla í Hvíta húsinu

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er farinn að halda skyndibitaveislur í Hvíta húsinu þar sem lokun ríkisstofnana þýðir að starfsfólk skortir til þess að annast veisluþjónustu fyrir forsetaembættið.

Til að mynda tók hann á móti ruðningsliðinu Clemson Tigers en liðið fór með sigur af hólmi í háskóladeildinni nýverið. Bauð Trump upp á 300 hamborgara, franskar og pizzur. „Vegna lokunarinnar fórum við og pöntuðum bandarískan skyndibita sem ég greiddi fyrir,“ sagði Trump við fréttamenn.

AFP

Lokun ríkisstofnana hefur áhrif á um 800 þúsund opinbera starfsmenn í Bandaríkjunum, þar á meðal starfsfólk Hvíta hússins sem hefur verið neytt í leyfi eða unnið launalaust í 24 daga. 

Trump neitar að samþykkja alríkisfjárlögin nema bætt verði inn á þau 5,7 milljörðum Bandaríkjadala sem nota á til þess að reisa múr á landamærum Mexíkó. Demókratar í fulltrúadeildinni hafa ekki viljað fallast á beiðni forsetans og þar stendur hnífurinn í kúnni. 

Frétt BBC

Þegar Trump var spurður út í hvað væri hans eftirlæti þegar kæmi að skyndibita svaraði hann því til að honum þætti þetta allt gott. „Ef það er bandarískt þá er ég hrifinn af því. Þetta er allt bandarískt fæði,“ sagði Trump.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, bauð til veislu í gær.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, bauð til veislu í gær. AFP
AFP
AFP
mbl.is