„Þetta er stúlkan sem ég ætla að ræna“

AFP

Rúmlega tvítugur Wisconsin-búi hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt foreldra Jayme Closs og rænt henni í kjölfarið. Hann ákvað að ræna henni eftir að hafa fyrir tilviljun séð hana fara upp í skólabíl.

Jake Patterson, 21 árs, segir að hann hafi verið á leið til vinnu í ostaverksmiðjunni sem hann starfaði í þegar hann þurfti að stöðva bifreiðina fyrir aftan skólabílinn. Þá sá hann Jayme, sem er þrettán ára gömul, og hafi strax vitað að þetta var stúlkan sem hann ætlaði sér að ræna. 

Jayme slapp úr haldi mannræningjans á fimmtudag eftir að hafa verið haldið fanginni í þrjá mánuði. 

Patterson sagði lögreglu að hann hafi aðeins starfað í verksmiðjunni í tvo daga en annan morguninn á leiðinni þangað sá hann Jayme. Hann fór í tvígang að heimili hennar í Barron til þess að nema hana á brott áður en honum tókst ætlunarverkið.

Jennifer Naiberg Smith, guðmóðir Jayme Closs, ásamt hundinum Molly.
Jennifer Naiberg Smith, guðmóðir Jayme Closs, ásamt hundinum Molly. AFP

Patterson, sem  var formlega ákærður í gær, lýsti því við yfirheyrslur hjá lögreglu hvernig hann undirbjó mannránið. Hann krúnurakaði sig, stal bílnúmeraplötum og setti á bíl sinn, notaði hanska til að koma í veg fyrir fingraför á skammbyssunni sem hann notaði við voðaverkið og útbjó farangursrými bifreiðarinnar þannig að ekki væri hægt að opna það innan frá.

Samkvæmt því sem fram kemur í málskjölum ruddist hann inn á heimili fjölskyldunnar og flúðu þær mæðgur, Jayme og Denise Closs, undan honum inn á baðherbergi hússins. Þær heyrðu skothvell og töldu fullvíst að innbrotsþjófurinn hefði drepið föður Jayme, James Closs.

Patterson braust síðan inn í baðherbergið og þvingaði Denise til þess að binda hendur og fætur dóttur sinnar áður en hann skaut hana til  bana. Síðan dró hann Jayme út í bíl og henti henni í skottið. Jayme segir að hann hafi ekið með hana í kofa í rúmlega 100 km fjarlægð frá heimili hennar þar sem hann hélt henni fanginni þangað til hún slapp úr klóm hans á fimmtudaginn.

Jeanne Nutter er sú sem Jayme hitti og kom henni …
Jeanne Nutter er sú sem Jayme hitti og kom henni til bjargar. AFP

Að hennar sögn reif hann hana úr öllum fötunum einn daginn og sagðist ætla að henda þeim í ruslið. Þegar vinir hans og fjölskylda komu í heimsókn neyddi hann hana til þess að felast undir rúmi og ef ekki kæmi eitthvað slæmt fyrir hana. 

Í einhver skipti lét Patterson Jayme vera allt að tólf tíma undir rúminu án þess að gefa henni að borða eða drekka. Hún fékk heldur ekki að fara á salerni meðan á þessum refsiaðgerðum hans stóð. Til þess að tryggja að hún kæmist ekki undan rúminu hlóð hann þungum hlutum allt í kringum það. 

Jake Thomas Patterson.
Jake Thomas Patterson. AFP

Jayme segir að henni hafi tekist að flýja 10. janúar eftir að Patterson fór að heiman en hann sagði að hann væri ekki væntanlegur aftur fyrr en eftir fimm eða sex klukkustundir. Hún lýsti því fyrir lögreglunni hvernig henni tókst að ýta hlutunum frá rúminu og skríða undan. Hún fór í skó af Patterson og flúði fótgangandi. Þegar hún rakst á konu sem var úti að ganga með hund sinn bað hún hana um hjálp. 

Að sögn lögreglumannanna sem handtóku Patterson þegar hann steig út úr bifreið sinni við kofann sagði hann: „Ég veit hvað þetta snýst um. Ég gerði það.“

Frétt BBC

Jayme Closs.
Jayme Closs. AFP
mbl.is