Var síbrosandi og hafði tíma fyrir alla

Pawel Adamowicz var vel liðinn af borgarbúum Gdansk. Witek segir …
Pawel Adamowicz var vel liðinn af borgarbúum Gdansk. Witek segir hann hafa verið opinn og brosandi og alltaf haft tíma fyrir alla. AFP

„Ég þekkti Adamowicz persónulega. Hann var yngri en ég en við gengum í sama skóla. Hann útskrifaðist frá sama grunnskóla og ég og sama menntaskóla og við eigum marga sameiginlega vini. Þannig að þetta er gríðarlega erfitt,“ segir Alexander Witold Bogdanski, formaður samtaka Pólverja á Íslandi, í samtali við mbl.is.

Pawel Adamowicz, borgarstjóri Gdansk í Póllandi, lést í gær af völdum sára sem hann fékk í hnífstunguárás á sunnudag.

Alexander Witold, eða Witek eins og hann er kallaður, fæddist og ólst upp í Gdansk og bjó í borginni þar til hann flutti til Íslands 1985. Hann segir hafa verið erfitt að fá fréttirnar. „Við konan vorum heima þegar við fréttum af árásinni. Við kveiktum þá á kerti og vonuðum að hann myndi hafa þetta af.“

Adamowicz undirgekkst fimm klukkustunda aðgerð þar sem reynt var að bjarga lífi hans og þurfti hann á mikilli blóðgjöf að halda í tengslum við aðgerðina. Hann var vel liðinn og segir Witek biðraðir hafa myndast af fólki sem vildi gefa blóð í von um að takast mætti að bjarga Adamowicz. „En því miður tókst það ekki.“

Pólska þjóðin klofin í pólitískri afstöðu sinni

Þúsundir Pólverja minntust Adamowicz í borgum og bæjum Póllands í gærkvöldi og fylgdist Witek með héðan frá Íslandi. „Almenningur í Gdansk er mjög sleginn og þar ríkir nú reiði og sorg,“ segir hann og bætir við að ekki megi þó gleyma því að pólska þjóðin sé í dag klofin í  pólitískri afstöðu sinni.

Þúsundir komu saman undir slagorðinu Stöðvið hatrið í Varsjá, höfuðborg …
Þúsundir komu saman undir slagorðinu Stöðvið hatrið í Varsjá, höfuðborg Póllands, í gær og vildu með því minnast Adamowicz. AFP

Fjallað er um klofninginn og lát Adamowicz í grein sem birtist á vefnum Politico. Þar segir að lát Adamowicz undirstriki þá pólitísku spennu sem ríki í Póllandi. Haft er eftir Jarosław Wałęsa, þingmanni Póllands á Evrópuþinginu og fyrrverandi mótframbjóðanda Adamowicz um borgarstjórastarfið, að árásin sé afleiðing þess að stjórnmálamenn taki ekki ábyrgð á orðum sínum. 

Adamowicz hafði sætt níðsflaumi frá fjölmiðlum hliðhollum stjórnvöldum og öðrum hægrisinnuðum miðlum. Þjóðernisflokkurinn Pólsk æska gaf meira að segja út „dánarvottorð“ fyrir Adamowicz fyrir tveimur árum.

Sátum saman og skoðuðum myndir

Sjálfur hitti Witek Adamowicz síðast í sumar en þá var boðað til þriggja daga hátíðarhalda í Gdansk, eins konar endurfunda fyrir Gdansk-búa sem eru búsettir erlendis. Witek fékk boð á nokkra viðburði því tengdu og hittust þeir þá. „Við sátum saman og skoðuðum myndir. Ég er að vinna að verkefni tengdu Íslandi sem verður sýnt í Póllandi í maí og var að vona að hann myndi koma þá, en því miður er hann farinn.“

Adamowicz for með sigur af hólmi í sjöttu borgarstjórakosningunum sem haldnar voru í nóvember í fyrra og átti því að sitja á borgarstjórastóli fram til 2023.

„Þegar ég hitti hann í sumar þá sagði ég við hann að ég væri viss um að hann myndi vinna aftur, sem kom á daginn þrátt fyrir allt það sem ýmsir stjórnmálaflokkar voru að gera,“ segir Witek.

„Hann var ótrúlega opinn og brosandi. Hafði alltaf tíma fyrir alla. Almenningur í Gdansk er mjög sleginn og þar ríkir nú reiði og sorg. Hann gerði gríðarlega mikið fyrir borgina og þó ekki hafi allir elskað hann, þá gerðu það flestir.“

Segja líklega nokkur orð til að minnast Adamowicz

Þjóðarsorg verður lýst yfir í Póllandi á útfarardegi Adamowicz. Sjálfur á Witek von á að sögð verði nokkur orð í minningu Adamowicz er Pólverjar hittast í Fossvogskirkjugarði klukkan 18.30 í kvöld.

„Við erum að minnast þess að 77 ár eru liðin frá því að pólskt skip sökk úti fyrir Íslandsströndum,“ segir hann. Atburðurinn átti sér stað í heimsstyrjöldinni síðari, en auk pólsku áhafnarinnar fórust einnig þrír Íslendingar sem voru um borð. „Það stóð ekki til þegar við skipulögðum atburðinn, en mér finnst mjög líklegt að við segjum líka nokkur orð til að minnast Adamowicz.“

mbl.is